Matarmál eldri borgara leyst - Heitar máltíðir í boði tvisvar í viku í sumar
Ég vona að fólkið okkar verði duglegt að nýta sér þetta þannig að hægt verði að bjóða upp á mat til kaups til frambúðar,“ segir Halla Birgisdóttir Ottesen forstöðumaður tómstundamála hjá Akureyrarbæ
Umræður hafa verið í hópi eldri borgara um hádegismat og niðurgreiðslu á honum í félagsmiðstöðvum fólksins, Birtu og Sölku bæði hjá Félagi eldri borgara og Öldungaráði Akureyrarbæjar, en enginn hádegismatur hefur verið í boði í félagsmiðstöðvunum frá því í fyrrahaust. Ráðið benti á að það væri áhyggjuefni að aðgengi eldra fólks að hollri næringu væru áhyggjur efni og hvatti bæjaryfirvöld til að leita leiða þannig að eldra fólk hefði aðgengi að hádegismat á viðráðanlegu verði í félagsmiðstöðvum sínum.
Vitinn eldar og styrkir
Nú hillir undir betri tíð hjá hópi eldri borgara sem vilja kaupa hádegismat en Halla segir að frá og með 1. Júní næstkomandi verði boðið upp á fjölbreyttan og góðan mat frá Vitanum tvisvar í viku í sumar og þriðju máltíðinni verði svo bætt við í haust og verður hún elduð á staðnum.
Fræðslu- og lýðheilsuráð hefur samþykkt að niðurgreiða máltíðirnar og eigandi Vitans veitir líka styrk til þessa góða málefnis þannig að máltíðin fæst á 1.500 krónur, „og ég er mjög sátt með það,“ segir Halla. Hún segir að um verði að ræða tilraunaverkefni sem standi út þetta ár og verði endurskoðað um áramót.