20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Margvíslegt hlutverk bráðamóttöku SAk
Markmið bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri er að veita bestu mögulegu þjónustu hverju sinni. Öllum sem þangað leita er forgangsraðað samkvæmt ESI-kerfi (e. Emergency Severity Index). Markmiðið með forgangsflokkuninni er að meta ástand sjúklinga sem leita á bráðamóttöku fljótt og á kerfisbundinn hátt.
Pálmi Óskarsson, yfirlæknir bráðamóttökunnar, segir að yfirleitt annist hjúkrunarfræðingur þetta fyrsta mat en stundum læknir. „Sumir skjólstæðingar okkar þekkja ekki kerfið og gera stundum athugasemdir við starfsfólk ef einhver sem kemur á eftir viðkomandi inn á biðstofuna fær meðhöndlun fyrr.“
Hann segir biðtímann á bráðamóttökunni að meðaltali um 10 mínútur en geti verið lengri á álagstímum. „Stuttur biðtími er einn af gæðavísum SAk og við kappkostum að halda honum innan 10 mínútna marksins. Bráðleiki sjúklings er metinn frá 1-5 þar sem hæsti forgangsflokkur er 1 en minnsti bráðleiki 5. Þetta mat ræður því í hvaða röð sjúklingarnir fá meðhöndlun.“
Tengistöð við aðrar deildir
Það sem gerist í framhaldinu ræðst af alvarleika þess sem hrjáir viðkomandi skjólstæðing. Pálmi nefnir myndatöku og frekari rannsóknir sem dæmi, sumir fari beint í aðgerð, öðrum er e.t.v. vísað á aðrar deildir SAk og í sumum tilvikum bent á önnur úrræði, svo sem heilsugæsluna (HSN); það fari allt eftir bráðleika í hverju tilviki.
„Bráðamóttakan er fyrsti viðkomustaður flestra sem leggjast inn á sjúkrahúsið, eins konar tengistöð við aðrar deildir þess,“ segir Pálmi. Hann segir að með nokkurri einföldun megi skipta bráðalækningum í þrjú þrep: Að leggja mat á ástand sjúklings, að veita bráðameðferð og loks að koma sjúklingi í réttan farveg í framhaldinu.
„Fólk kemur stundum til okkar með erindi sem eru alls ekki bráð. Auðvitað er mikilvægt að sinna því fólki en við leitum stöðugt leiða til að geta sinnt bráðaþjónustunni sem best. Heppilegast væri að koma eftirfylgni og minna bráðum tilvikum annað.“ Í því sambandi nefnir hann að SAk sé m.a.í mjög góðu samstarfi og samráði við HSN.
Mest að gera í bongóblíðu!
Pálmi segir að júlímánuður hafi verið annasamasti tíminn á deildinni mörg undanfarin ár og býst við að það breytist ekki. „Aðsóknin hingað er í beinu samhengi við veðrið, ef svo má segja. Þegar bongóblíða er á Akureyri fyllist bærinn af fólki alls staðar af. „Formúlan“ er einfaldlega sú að því fleiri sem eru í bænum eða á Eyjafjarðarsvæðinu, því fleiri slys og óhöpp geta átt sér stað.“
Hann nefnir ennfremur fjölmennar hátíðir og íþróttamót sem álagspunkta á bráðamóttökunni, svo sem Bíladaga, N-1 og Pollamótshelgina, Fiskidaginn mikla og öldungamót í blaki. „Þegar slíkar fjöldasamkomur eru fyrirhugaðar reynum við að þétta mönnunina og hafa sem flest starfsfólk tiltækt,“ segir hann. Tíð koma skemmtiferðaskipa leiði einnig af sér aukið álag hjá deildinni.
Vilja kynna sem flestum starfsemina
Bæjarstjórn Akureyrar þáði nýverið boð um að koma og kynna sér starfsemi bráðamóttökunnar. „Við höfum áhuga á að kynna fleiri hópum starfsemina hér og tökum vel í allar fyrirspurnir þess efnis,“ segir Pálmi.
Hann segir gott að sem flestir þekki það kerfi sem deildin vinnur eftir. „Þetta er vel búin deild, bæði hvað varðar húsakost og tækjakost og svo er starfsfólkið frábært. Við viljum gjarnan að sem flestir sjái það með eigin augum hversu faglega er að öllu staðið hérna.“