Margmenni á frábærri sýningu Péturs ljósmyndara: Myndasyrpa
Pétur Jónasson ljósmyndari á Húsavík var útnefndur listamaður Norðurþings 2020. Að því tilefni opnaði hann stórglæsilega sýningu í Safnahúsinu á Húsavík klukkan 18 í dag. Blaðamaður Vikublaðsins var á staðnum.
Pétur Jónasson er fæddur á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1941. Hann fékk snemma áhuga á ljósmyndun og strax á táningsaldri seldi hann myndir sem hann tók af leikritum sem sett voru upp í fæðingabæ hans. Árið 1958 hélt hann til náms en að loknu námi í Reykjavík árið 1962, stofnaði hann Ljósmyndastofu Péturs á Húsavík; og hefur rekið hana æ síðan.
Pétur hefur farið í gegnum gríðarlegar breytingar í faginu á þessum tæpu 60 árum. Framan af voru myndirnar svarthvítar og handlitaðar. Síðar varð hann annar tveggja ljósmyndara sem fyrstir voru til að framkalla ljósmyndir í lit á Íslandi. Síðar kom stafræna byltingin, filmuframköllun fyrir almenning og nú í nýjustu tíð; myndir teknar á snjallsíma.
Það er nokkuð langt síðan ljósmyndastofa Péturs varð sú elsta á landinu, því þegar stafræna byltingin hélt innreið sína hættu flestir jafnaldrar hans. Pétur veit hins vegar fátt skemmtilegra en tækninýjungar og hefur sagt að helst hefði hann viljað vera að byrja núna.
Pétur hefur myndað stærstu stundir margra kynslóða Norðlendinga, búið til skólaspjöld fyrir ófáa skóla og tekið myndir af börnum á öskudaginn, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er ótalin vinna hans fyrir Leikfélag Húsavíkur, en hann hefur tekið myndir af hverri einustu uppfærslu LH frá árinu 1962. Myndirnar skipta þúsundum og eru mikið menningarverðmæti.
Nokkrar þeirra má sjá á sýningunni sem opnuð var í dag ásamt völdum myndum af fólki og mannlífi norðan heiða í meira en hálfa öld.
Þetta er sýning sem ekki má missa af en hún verðu opin út septembermánuð. Smella má á myndirnar til að skoða þær í hærri upplausn og fá fram myndtexta. /epe