13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Margir sem sýna Glerártorgi áhuga
Davíð Rúnar Gunnarsson markaðsstjóri Verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs segir að árið það sem af er hafi verið gott og þó umferð hafi dottið niður í mars þegar kórónuveirufaraldur var í hámarki hér á landi sé hún að ná sér vel á strik.
Mikil aðsókn síðustu vikur
„Árið hefur verið mjög gott það sem af er. Mikil aðsókn og síðustu vikur hafa verið alveg frábærar,“ segir Davíð Rúnar. Verulega dró úr umferð í mars eftir hertar sóttvarnarreglur og samkomubann í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. En hún náði sér fljótlega á strik og er komin í samt horf. Hann segir að greinilega treysti fólk því að sóttvarnir og annað sé í lagi á Glerártorgi og verslunareigendur séu að standa sig í þeim efnum.
Margir sýna áhuga
Rúmfatalagerinn flytur sína starfsemi á nýjan stað eftir um það bil eitt ár og segir Davíð Rúnar að við það opnist möguleikar fyrir aðra að koma inn. „Það eru ýmsar pælingar í gangi, menn eru að velta vöngum yfir stöðunni og hvað verður,“ segir hann en pláss sé stórt og það bjóði upp á útisvæði sem henti margs konar starfsemi. Hann segir að mikið sé um fyrirspurnir um hvað sé í boði á Glerártorgi og margir komi við og skoði aðstæður og þau pláss sem hægt er að komast í. Bæði sé um að ræða verslanir og fyrirtæki. „Áhuginn er greinilega mikill,“ segir hann.
H&M opnar
Ný verslun H&M verður opnuð á Glerártorgi 3. september næstkomandi, hin fyrsta utan höfuðborgarsvæðisins. Verslunin verður með 2000 fermetra rými undir starfsemi sína.
„Það er verið að gera pláss klárt, margar hendur að störfum og allt gengur samkvæmt áætlun. Við finnum fyrir því að bæjarbúar eru spenntir að fá þessa viðbót inn í bæjarfélagið,“ segir Davíð Rúnar.
H&M er með þó nokkuð pláss undir sína verslun og urðu nokkrar tilfærslur á nokkrum öðrum verslunum á Glerártorgi sem færðu sig um set innan verslunarmiðstöðvarinnar. Davíð Rúnar segir að mikið hafi verið umleikis vegna flutninga og þeir skapað heilmikla vinnu fyrir iðnaðarmenn á svæðinu. „Þetta hefur verið töluvert innspýting í atvinnulífið hér norðan heiða,“ segir hann.