Mamma fékk aldrei útborgað
Ólafur Ásgeirsson skrifar:
Ég er elstur átta systkina og erum við flest fædd með eins eða tveggja ára millibili. Ég man vel eftir mér þegar ég ég var svona fimm ára og lífið eftir það er gott í minningunni.
Mamma mín, Guðrún Ólafsdóttir, ættuð frá Vopnafirði, var 21 árs þegar ég fæddist og voru þá þau pabbi, Ásgeir Halldórsson, gift.
Ég ætla ekki að skrifa um uppvöxt minn eða dásamlegt samneyti við pabba, heldur er það mamma sem er mér kærust við þessar skriftir. Ég þurfti að vera orðinn fullorðinn til að uppgötva það hve mikill þáttur mömmu var í uppeldi mínu og okkar systkinanna.
Þegar ég fór að vinna sjálfur, stimpla mig inn og út úr vinnunni og sjá fyrir mér, fór ég að hugsa um vinnuframlag mömmu á heimili okkar.
Hún þurfti ekki að stimpla sig inn eða út því hún var alltaf í vinnu og fékk aldrei lögboðinn hvíldartíma. Þegar við krakkarnir komum á fætur til að fara í skólann var mamma að sjóða hafragraut í stórum potti og til þess að svo gæti verið þurfti hún að fara á fætur eigi síðar en kl. 07.00.
Við skyldum fá staðgóðan morgunmat áður en við færum í skólann.
Þegar allir voru farnir í skólann og pabbi vinnuna þurfti hún að vaska upp, búa um rúm, taka til í íbúðinni og þvo skítug föt af öllum hópnum. Allir komu svo heim í hádeginu, pabbi úr vinnunni og við krakkarnir úr skólanum.
Þá var hádegismatur og alltaf heit máltíð.
Engin uppþvottavél
Þrátt fyrir það að pabbi keypti flest heimilistæki til að létta mömmu störfin þá eignaðist hún aldrei uppþvottavél þannig að þegar allir voru farnir í vinnu og skóla þurfti hún að vaska upp eftir stóra máltíð á stóru heimili.
Við komum svo úr skóla seinnipartinn og þá var alltaf kakó eða mjólk og smurt brauð. Mamma smurði handa öllum. Eftir kaffi tók við heimanámið hjá okkur krökkunum og fylgdist mamma með því að allt væri vel unnið fyrir skólann. Hún hafði fallega rithönd og ætlaðist til þess af okkur að við skrifuðum vel.
Kvöldmatur var svo kl. sjö og alltaf eins og í hádeginu, heit máltíð.
Systur mínar voru duglegar að hjálpa henni við uppvaskið á kvöldin en til þess var ekki ætlast af okkur strákunum. Einn dagur var þó undanskilinn en það var aðfangadagskvöld.
Þá skyldu strákarnir vaska upp.
Á kvöldin var mamma oftast að prjóna eða sauma og gera við föt af okkur. Svo þurfti að taka inn þvott og strauja því við skyldum fara í hreinum og góðum fötum í skólann á hverjum morgni.
Oftast var kvöldkaffi um kl. Tíu og þá drukku fullorðnir kaffi en börnin mjólk og etið var eitthvert brauð. Síðan fórum við að sofa en alltaf var mamma ennþá á fótum þegar við sofnuðum og það var stundum seint. Svona var alla daga vikuna nema á sunnudögum þá fór mamma yfirleitt ekki á fætur fyrr en um kl. níu.
Samkvæmt þessu vann mamma sautján tíma á dag sex daga vikunnar að minnsta kosti en aðeins fimmtán á sunnudögum. Þetta gerir a.m.k. hundrað og sautján tíma á viku en hún fékk aldrei útborgað.
Hún fékk aldrei nein laun en náði þó að fá ellistyrk í um það bil eitt ár áður en hún lést.
Mamma hafði alltaf svokallaða peningabuddu og í hana setti pabbi, sem var eina fyrirvinnan, peninga fyrir mjólk, brauði o.fl. sem keypt var í KEA hverfisbúðinni.
Nú nálgast jólin með öllu því sem þeim fylgir. Hjá mömmu var margt sem fylgdi jólunum. Það var bakað og það mikið og einnig var allt þvegið hátt og lágt. Þá lengdist vinnudagurinn alltaf eitthvað og um leið styttist hvíldartími hennar. Mamma naut jólanna með öllu því amstri sem þeim fylgdu.
Ein föst venja var þó alltaf hjá henni og það var á Þorláksmessa. Þá um kvöldið fór hún alltaf í bæinn til að kaupa það sem hana langaði í. Hún naut þess að ganga á milli búða, skoða og kaupa það sem hún gat. Hún kom yfirleitt heim um miðnætti, þreytt en ánægð.
Hún hafði gegnum árið sparað svolitla peninga til að geta keypt það sem hana langaði í. Þegar heim kom átti hún eftir það síðasta sem gera skyldi fyrir jólin og eflaust var farið að nálgast morgun aðfangadags þegar hún lagði sig. Hún var hins vegar komin á fætur á þegar við krakkarnir vöknuðum.
Ég fór mikið á mínum unglingsárum í útilegur með skátunum og alltaf sá mamma um að nægur matur væri meðferðis og ekki síður hlý og góð föt.
Barnungur hóf ég störf hjá lögreglunni. Þá áttum við bara einn einkennisbúning og oft var það eftir erfiðar vaktir að búningurinn var óhreinn og rifinn. Mamma sá hins vegar alltaf um að hann væri pressaður og fínn þegar næsta vakt hófst.
Þegar ég var um tvítugt var ég í skóla á vegum lögreglunnar í Danmörku. Þar stóð mér til boða að gerast lögreglumaður á Grænlandi í eitt ár ásamt nokkrum dönskum lögregluvinum mínum.
Launin áttu að vera mjög góð og einnig góð skattafríðindi. Ég hringdi heim í mömmu og sagði henni að ég væri að hugsa um þetta tilboð.
Hún svaraði strax og ákveðið. Þú ferð ekki að vinna sem lögreglumaður á Grænlandi. Að sjálfsögðu hlýddi ég því. Svona var mamma.
Minnumst mæðranna
Þegar ég rifja þetta upp hugsa ég um það hve mikið mæður þessa tíma lögðu til lífsins. Saga mömmu er ekkert einsdæmi.
Ég veit að flestar aðrar mæður voru í alveg sömu sporum og hún móðir mín. Ég skrifa þessar línur í minningu mömmu en bið um leið alla syni þessa lands að minnast mæðra sinna með miklum hlýhug og virðingu.
Höfundur er aðstoðaryfirlögregluþjónn emeritus.