Lundarskóli sigraði upplestrarkeppni grunnskólanna
Þann 7. mars fór fram upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, en hún ber heitið Upphátt. Keppnin var haldin í Hömrum, menningarhúsinu Hofi og var þetta í 22. skiptið sem keppnin var haldin. Það voru nemendur í 7. bekk sem tóku þátt en áður en lokahátíðin átti sér stað höfðu skólar haldið forkeppni þar sem tveir fulltrúar voru valdir til að keppa fyrir hönd skólans.
Í ár áttu sjö skólar fulltrúa í keppninni og því voru það 14 hæfileikaríkir nemendur sem lásu part úr sögunni Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason og ljóð eftir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.
Í dómnefnd sátu Vilhjálmur Bergmann Bragason, Hólmkell Hreinsson og Eyrún Huld Haraldsdóttir og hlutskipti hennar var ekki auðvelt því þátttakendur stóðu sig allir með mikilli prýði. Verðlaunasæti Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri 2023 hrepptu:
-
Magni Rafn Ragnarsson, Lundarskóla, 1. sæti
-
Arna Lind Jóhannsdóttir, Síðuskóla, 2. sæti
-
Thorfhildur Elva F. Tryggvadóttir, Brekkuskóla, 3. sæti
Í aðdraganda hátíðarinnar var einnig blásið til keppni meðal 7. bekkja um besta veggspjaldið. Teikning eftir Unu Björk Viðarsdóttur nemanda í 7. bekk Glerárskóla sigraði og prýddi veggspjald Upphátt 2023, viðurkenningarskjöl og boðskort keppninnar. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Fyrir keppni sem þessa þá leggja bæði nemendur og kennarar talsverða vinnu við undirbúning, en upphaf hennar er á degi íslenskra tungu, 16. nóvember ár hvert. Sá hluti keppninnar er kallaður ræktunarhluti þar sem nemendur 7. bekkjar leggja sérstaka áherslu á upplestur, vandaðan framburð, framkomu og túlkun orða.
Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda í Tónlistarskólanum á Akureyri í sem var í umsjón Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur og Ásdísar Arnardóttur. Þá flutti Brynhildur Þórarinsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri og barnabókahöfundur hvatningu til krakkana og annarra áheyrenda.
Styrktaraðilar keppninnar í ár voru; Sparisjóður Höfðhverfinga, Penninn Eymundsson, Blómabúð Akureyrar, Mjólkursamsalan og Myllan. Skipuleggjendur keppninngar kunna þeim bestu þakkir fyrir sem og öllum upplesurum, kennurum, tónlistarflytjendum, dómurum og öðrum sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessarar keppni.