Lokun Húsasmiðjunnar reiðarslag fyrir íbúa

Samsett mynd. Húsasmiðjan á Húsavík og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags…
Samsett mynd. Húsasmiðjan á Húsavík og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags.

Húsasmiðjan hefur tilkynnt að um næstu áramót verður verslunum fyrirtækisins á Dalvík og Húsavík lokað. Á sama tíma mun ný þjónustumiðstöð Húsasmiðjunnar fyrir Norðurland opnar við Freyjunes á Akureyri.

Í tilkynningunni kemur fram að rekstrargrundvöllur Húsasmiðjunnar á Dalvík og Húsavík hafi reynst þungur undanfarin ár þrátt fyrir velvilja bæði heimamanna og fyrirtækisins. „Hörð samkeppni, aukin vefverslun og fleiri breytingar á markaði hafa gert það að verkum að rekstur byggingarvöruverslana og timbursölu á sér ekki grundvöll á þessum stöðum,“ segir í tilkynningunni. 

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar sagði að ákvörðunin hafi ekki verið tekin með léttum hug.

Húsavíkingar harmi slegnir

Kúti

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags var ómyrkur í máli þegar Vikublaðið leitaði viðbragða hjá honum vegna lokunarinnar. Framsýn hefur beitt sér af fullum þunga fyrir að halda mikilvægri þjónustu í bænum. Hann hefur fundað með   forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar og reynt að fá þá ofan af þessari ákvörðun en án árangurs. 

„Ég bara kaupi það ekki að það sé ekki rekstrargrundvöllur fyrir byggingavöruverslun á Húsavík við þessar aðstæður,“ sagði Aðalsteinn við Vikublaðið og vísaði þar til uppbyggingar í tengslum við kísilver PCC á Bakka og fyrirhugaða uppbyggingu á grænum iðngörðum. (e. eco industial park)

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags ályktaði um málið á fundi sínum á gærkvöld. Þar er ákvörðun Húsasmiðjunnar hörmuð. „Forsvarsmenn Framsýnar hafa í samtölum við stjórnendur Húsasmiðjunnar ítrekað mikilvægi þess að fyrirtækið haldi starfseminni áfram á Húsavík, ekki síst þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram á komandi árum,“ segir m.a. í ályktuninni. 

Þá er þess getið að eðlilegt sé að rekstrarforsendur séu endurskoðaðar á hverjum tíma og brugðist við með viðeigandi hætti. En að loka versluninni á Húsavík alfarið sé mikið reiðarslag. Framsýn lætur í veðri vaka að með lokun á Húsavík og Dalvík sé einungis verið að ná fram hagræðingu á móti auknum útgjöldum við byggingu hins nýja verslunarhúsnæðis á Akureyri.

„Á sama tíma og Húsasmiðjan boðar lokanir á verslunum sínum á Dalvík og Húsavík fjárfestir fyrirtækið í dýru verslunarhúsnæði á Akureyri. Með lokun minni verslananna hyggst fyrirtækið ná fram hagræðingu á móti auknum útgjöldum við byggingu hins nýja verslunarhúsnæðisins,“ ályktar stéttarfélagið og lýsir yfir áhyggjum um þróun verslunar í dreifbýli sem í auknum mæli hefur verið að flytjast í stærri þéttbýliskjarna.  

Ítarlegri umfjöllun er að finna í prentútgáfu Vikublaðsins sem kemur út á morgun. HÉR getur þú smelllt til að panta áskrift.

Hér að neðan má lesa ályktunina í heild sem samþykkt var samhljóða í gærkvöld:

Ályktun

-Lokun Húsasmiðjunnar hörmuð-

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags harmar þá ákvörðun Húsasmiðjunnar að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót.

Forsvarsmenn Framsýnar hafa í samtölum við stjórnendur Húsasmiðjunnar ítrekað mikilvægi þess að fyrirtækið haldi starfseminni áfram á Húsavík, ekki síst þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram á komandi árum.

Vissulega er eðlilegt að menn endurskoði rekstrarforsendur á hverjum tíma og bregðist við því með viðeigandi hætti s.s. með breyttu fyrirkomulagi á verslun og þjónustu. En að loka versluninni er reiðarslag þar sem vitað er að góður rekstrargrundvöllur er fyrir því að reka byggingavöruverslun á stað eins og Húsavík sem þjóni verktökum og öðrum viðskiptavinum í Þingeyjarsýslum.

Á sama tíma og Húsasmiðjan boðar lokanir á verslunum sínum á Dalvík og Húsavík fjárfestir fyrirtækið í dýru verslunarhúsnæði á Akureyri. Með lokun minni verslananna hyggst fyrirtækið ná fram hagræðingu á móti auknum útgjöldum við byggingu hins nýja verslunarhúsnæðisins. 

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af neikvæðri  þróun verslunar í dreifbýlinu sem í auknum mæli hefur verið að flytjast til stærri þéttbýliskjarna með tilheyrandi viðbótar kostnaði fyrir íbúa á viðkomandi svæðum. Við þessari þróun þarf að bregðast þegar í stað enda brýnt byggðamál.“

 

 

Nýjast