30. október - 6. nóember - Tbl 44
Lokaorðið - Um formæður
Eftir því sem þroskinn færist yfir mig, reikar hugurinn meira til formæðra minna. Íslenskt samfélag hefur á ógnarhraða tekið mikilum breytingum og því getur verið erfitt að setja sig í spor þeirra. Lífsstrit, örlög og lífsganga þeirra var afar ólík okkar. Stýrðu þær lífi sínu og hvaða tækifæri höfðu þær í raun?
Halldóra langalangamma mín var fædd 1863 á Brettingsstöðum á Flateyjardal. Hún var gift Sigurgeir Sigurðssyni frá Uppibæ í Flatey. Flateyjardalur liggur á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, þekktur fyrir mikið vetrarríki og samgöngur því oft torveldar, sem er ástæða þess að dalurinn fór í eyði þegar búsetu lauk á Brettingsstöðum árið 1953.
Bærinn, sem stendur enn, er við sjóinn og stutt yfir í Flatey á Skjálfanda og því matarkista ágæt. Bæði var þar að finna fiska og fugla auk blessaðrar sauðkindarinnar sem löngum var uppistaða í fæðu okkar Íslendinga. Langir, kaldir og dimmir vetur í einangrun, en náttúrufegurðin alls ráðandi á sumardögum. Þangað var ekki auðsótt að fá lækni þótt börn veiktust.
Það þurfti útsjónasemi og seiglu að búa við svona einangrun. Tryggja varð að allir hefðu til hnífs og skeiðar og hlý föt á köldustu dögunum. Sjaldan hefur hún sett sjálfa sig í fyrsta sætið. Halldóra eignaðist 16 börn. Af þeim náðu 10 fullorðinsaldri, en tvö þeirra dóu úr taugaveiki um tvítugt. Hversu þung hafa spor foreldranna verið að fylgja 8 börnum sínum til grafar? Langamma mín Emilía fædd 1903 var næst yngst barna þeirra hjóna.
Afkomendur Halldóru eru 334, atgervismenn og fallegt sómafólk þótt ég segi sjálf frá.