Lokaorðið - Eftirstöðvarnar
Það eru allir undir sömu sökina seldir, hugsa með hrolli til Kóvid-tímans. Við hristum af okkur minningar um pestarhræðslu, innilokun, samkomutakmarkanir, örugga fjarlægð, Víðihlýðni, spritt, grímur og hanska. Myndir af heilgölluðum læknum og hjúkrunarfræðingum. Óttann við símtal frá smitrakningarteyminu.
Þó var ekki allt alslæmt. Foreldrar lærðu að meta betur störf kennara og leikskólakennara. Börn voru hraustari, enginn dirfðist að senda barn með hor í skóla eða leikskóla. Aðrar pestir létu lítið á sér kræla, þökk sé handþvottinum og sprittinu. Og nú kunna allir að nota Zoom og Teams, fjarfundir og streymi eru einfalt mál. Tvímælalaust stærsti ávinningurinn.
Börnin voru fljót að tileinka sér sóttvarnarsiði. Ég ákvað að nýta mér ástandið og taldi örverpinu trú um að jólasveinninn væri í sóttkví og af miklum klókindum var það útskýrt fyrir barninu að skórinn yrði að vera í stofuglugganum því rúm barnsins væri of nálægt glugganum. Þóttust foreldrarnir aldeilis hafa snúið skódæminu jólasveininum í vil.
Drengurinn setti dýrindis piparkökur í skóinn handa aumingja jólasveininum í sóttkvínni. Það sem jólasveinninn vissi ekki var að, í sóttvarnarskyni, höfðu piparkökurnar verið úðaðar með spritti. Umtalsverðu magni, líklega til að gæta fyllsta öryggis.
Þar sem tveir jólasveinar stóðu skyrpandi, bölvandi og ragnandi á stofugólfinu, þá og einmitt þá sameinuðust Höfðahjón í einlægu hatri á bæði veiru og öllum sóttvarnaraðgerðum.
Spritt hefur ekki verið haft hér uppi á borðum síðan þá.