Lokaorðið - Börn óvelkomin

Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í Vikublaðinu í s.l fimmtudag.
Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í Vikublaðinu í s.l fimmtudag.

Um miðja síðustu öld voru vinkonurnar Elsa og Alla að ráða sig í sveit á sinnhvorn bæinn í Höfðahverfi. Í ráðningarferlinu kom babb í bátinn, annarri stúlkunni fylgdi tveggja ára drengur og hann vildi bóndinn ekki fá í vist, heldur vildi hann ráða barnlausu stúlkuna. Nú voru góð ráð dýr. Þær hringja í ekkjuna í Höfða og kanna hvort hún sé tilbúin að taka Elsu með barnið í vist. Ekki stóð á svari hjá Sigrúnu: ,,blessuð vertu, það er nóg pláss fyrir börn í Höfða”. Reyndist þetta mikið happaráð og mæðginin urðu hluti af Höfðafjölskyldunni.

En hann er víða bóndinn sem ekki vildi barnið í bæinn. Stundum er hann í líki ráðamanna sem hunsa hjálparköll barnanna á Gaza. Stundum er hann bara venjulegt fólk.

Börn eru nefnilega ekki allstaðar velkomin, það er ekki endilega gert ráð fyrir þeim eða tekið tillit til þeirra. Það er stundum eins og þau séu beinlínis til óþurftar og fari í taugarnar á fólki. Útilokuð og bönnuð. Við fáum boð í barnlaus brúðkaup, afmæli og jafnvel skírnarveislur. Sumir baðstaðir banna börnum aðgang. Mat foreldra á því hvað er börnum bjóðandi og viðeigandi er hunsað. Barn sem upplifir sig óvelkomið, útilokað og fyrir, mun það koma vel undirbúið til þátttöku, lífs og starfs í lýðræðisþjóðfélagi?

Hvernig búum við að barnafólki og okkar yngstu þegnum? Mannekla og aðbúnaður leikskóla landsins, bið og takmörkun á leikskólaplássum. Óhjákvæmilega hefur þetta allt áhrif á vilja fólks til barneigna.

Börnin munu taka ákvarðanirnar í framtíðinni. Við verðum þá gamalmenni. Hvernig samfélag munu þau skapa okkur?

Barnlaust samfélag er deyjandi samfélag. Sá dauði er hægur og sársaukafullur.

Nýjast