Lokaorðið - Á hvítum sokkum

Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaði s.l viku.
Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaði s.l viku.
Einusinni var ég klædd í hnéháa hvíta sporsokka, ægilega fallega, enda átti að fara í fermingarveislu í sínu fínasta pússi. Ég vildi hvorki fara í sokkana eða kjólinn sem mér var ætlaður og meðan mamma var að sjæna sig þá laumaðist ég út, í fínu sokkunum og gúmmískónum, húsaúlpuna yfir fína kjólinn.
 
Ræsið undir veginn neðan við fjósið var stíflað og yfir tjörninni var þunnur klaki sem flæddi sumsstaðar yfir. Þarna við og á veginum voru margir drullupollar og þar stundaði Ásta miklar vatnsveituframkvæmdir með hyggjuvitið og gúmmískóna að vopni. Þarna dundaði litli verkfræðingurinn dágóða stund og skeytti lítið um klæðnaðinn enda mikill skurðgröftur og stíflugerð í gangi. Hvað ætli ísinn við veginn þoli mikið? Eina leiðin auðvitað að prófa. Svo óhikað var lagt út á ísinn. Skemmtilegt hljóð þegar vatnið þrýstist undan klakanum. Hvað ætli gerist ef ég hoppa?
 
Eina leiðin að sjálfsögðu, að prófa… ísinn þoldi minna en ég hélt. Kalt vatnið og drulluleðjan, blönduð afrennsli úr fjósinu,þrýstust innundir úlpuna og upp um hálsmálið. Drulluslettur yfir hár og andlit. Fæturnir sukku í drulluna á botninum og þar með fastir. Það varð mér til happs að skurðurinn var gamall og handgrafinn, ekki djúpur og á skurðbakkanum var girðing sem ég náði að grípa í og krafla mig þannig uppúr. Gúmmískórnir urðu eftir á botninum og ekki að sjá á sokkunum að þeir hefðu einusinni verið hvítir.  Það var hvorki hlýtt né þægilegt að staulast heim og trúlega hafa móttökurnar ekki verið hlýlegar heldur, ég man það ekki.
 
Ekki man ég heldur hvernig fór með veisluna en hvíta sporsokka var ég aldrei klædd í aftur…..
 
 
 
 
 
 
 

Nýjast