13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Ljósmyndir innan úr stærsta hljóðfæri landsins
Ljósmyndasýningin Organs of the Organ eftir Nínu Richter verður haldin í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju við Eyrarlandsveg á sunnudag, 2. ágúst. Hún verður opnuð kl. 18 og stendur aðeins yfir í eitt kvöld.
Um sýninguna segir í tilkynningu: „Innan í stærsta hljóðfæri landsins, Klais-orgeli Hallgrímskirkju, er töfraheimur með á sjötta þúsund pípum og tæknibúnaði úr málm og timbri, umfangsmiklum tölvubúnaði, ótal skápum og innri byggingu á fjórum hæðum, sem lítur út eins og vélbúnaður af öðrum heimi. Þessi hluti hljóðfærisins er og verður áfram lokaður almenningi, en þrátt fyrir það er yfirbyggingin, kirkjan sjálf ein fjölsóttasta bygging landsins og vafalaust ein sú mest ljósmyndaða, fyrir utan að vera helsta kennileiti höfuðborgarinnar.“
Nína Richter reynir að nálgast orgelið frá nýrri hlið. Orgelið hefur 4 spilaborð og fótspil, 72 raddir og 5275 pípur. Orgelið er 15 metra hátt, vegur um 25 tonn og stærstu pípurnar eru um 10 metra háar. Organs of the Organ er afrakstur vinnustofu í Ljósmyndaskóla Sissu og verkið er unnið undir handleiðslu ljósmyndarans Spessa. Ljósmyndirnar eru teknar á tímabilinu október 2019 - júní 2020.
Boðið verður upp á léttar veitingar, allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.