Ljósin tendruð á jólatrénu á Ráshústorgi
Á morgun klukkan 16 verða ljósin tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi á Akureyri en það er gjöf frá Randers, vinabæ Akureyrar í Danmörku. Dagskráin hefst með tónlist frá Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri undir stjórn Alberto Porro Carmona. Þau Aðalbjörg Þóra Árnadóttir og Hannes Óli Ágústsson leikarar frá Leikfélagi Akureyrar sjá um að kynna dagskrána. Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar flytur ávarp og að því loknu mun sendiherra Dana á Íslandi, Mette Kjuel Nielsen flytja ávarp og afhenda bæjarbúum jólatréð. Þetta er í fyrsta skipti sem danski sendiherrann sækir Akureyri heim. Hin níu ára gamla Silja Mjöll Stenberg Lauridsen mun sjá um að kveikja ljósin á jólatrénu og að því loknu mun Stúlknakór Akureyrarkirkju syngja nokkur lög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur. Síðast en ekki síst koma á svið herrarnir sem börnin bíða eftir, þeir Kjötkrókur, Kertasníkir og Hurðaskellir og munu þeir syngja og tralla með börnunum og gefa þeim epli í lok dagskrár.