Ljóð og vísur eftir Hjálmar Freysteinsson
Bókaútgáfan Hólar hefur sent frá sér bókina Ekki var það illa meint eftir Hjálmar Freysteinsson, fyrrum heimilislækni á Akureyri. Hjálmar var fæddur árið 1943 og lést árið 2020. Hann var landsþekktur fyrir skemmtilegar og vel gerðar vísur, kom víða fram á hagyrðingamótum og öðrum samkomum og vakti oft gríðarlega kátínu með kveðskap sínum.
„Hjálmar var skáld hlátursins og gleðinnar, hann var aldrei rætinn eða klúr, bara skemmtilegur,“ segir í tilkynningu. Hér að neðan fara nokkur dæmi um kveðskap Hjálmars.
Á Lágheiði djúp eru díkin,
þar drukknaði Móskógatíkin.
En banamein Hreins,
bakarasveins,
það var þágufallssýkin.
Önnur heitir Mátti ekki seinna vera:
Arnfríður Ásgerður Dögg
í ellinni tók á sig rögg
og eignaðist krakka
með Eyvindi skakka.
Varð þá að vera mjög snögg.
Ein heitir einfaldlega Eðlishvötin:
Eðlishvöt sumra er ýkt
og erfitt að ráða við slíkt.
Þegar Ólöf á Bakka
eignaðist krakka
sagð‘ ún: „Já, þetta var Þorsteini líkt!“
Og svo er vísað í söguna. Sú næsta heitir Í útilegu.
„Ég er komin með hundleið‘ á köllum,
þeirra karlrembutilburðum öllum,“
mælti Halla eitt kvöld,
höstug og köld.
Þá kom Eyvindur alveg af fjöllum.
Bókinni er skipt í nokkra kafla eftir yrkisefnum. Í einum þeirra eru vísur um veðrið, hið sígilda umræðuefni okkar Íslendinga, t.d. þessi um Lognið í Hrútafirði:
Í Hrútafirði er himinn blár
og heiðríkt daga alla.
Þar bærist ekki á höfði hár
hafirðu beran skalla.
Sumar vísurnar hafði Hjálmar birt á fésbókarsíðu sinni og þeim fylgir jafnan dagsetning í bókinni til þess að auðvelda lesendum að átta sig á tilefninu. Þannig er t.d. vísan Menningarnótt dagsett 17. ágúst 2018:
Í miðborginni á Menningarnótt
mun ei láta sjá mig!
Þar verður bara ullað á mig.