Líklegast að bærinn sjái áfram um reksturinn í Hlíðarfjalli

Hlíðarfjall.
Hlíðarfjall.

Frestur til að skila inn tilboðum í rekstur og starfsemi Hlíðarfjalls rann út þann 9. ágúst sl. Eitt tilboð barst. Eftir yfirferð á innsendum gögnum reyndist það ekki uppfylla hæfisskilyrði og var því hafnað. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Ríkiskaup, fyrir hönd Akureyrarbæjar, óskaði eftir tilboðum í heilsársrekstur skíða- og útvistarsvæðisins í Hlíðarfjalli þar sem markmiðið var að Hlíðarfjall yrði nýtt á sem fjölbreytilegastan máta fyrir samfélagið á Akureyri og gesti. Útboðið var auglýst í lok júní með tilboðsfresti til hádegis 9. ágúst.

„Þetta eru vissulega vonbrigði en eitthvað sem við gerðum okkur grein fyrir að gæti komið upp,“ segir Halla Björk Reynisdóttir formaður stjórnar Hlíðarfalls í svari við fyrirspurn blaðsins. Hún segir að stjórnin muni funda eftir hádegi í dag og fara yfir stöðuna og þá næstu skref.

„Líklegasta niðurstaðan er að Akureyrarbær sjái um rekstur skíðasvæðisins áfram í vetur,“ segir Halla Björk ennfremur, en það skýrist betur eftir fundinn.

Nýjast