Líf og fjör á Háskóladeginum

Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Thelma Hrund Hermannsdóttir eru stúdentar í fjölmiðlafræði við Háskóla…
Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Thelma Hrund Hermannsdóttir eru stúdentar í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Mynd/HA

Háskóladagurinn var haldinn í fyrsta sinn á Akureyri síðast liðinn laugardag í húsnæði Háskólans á Akureyri. Þar kynntu allir háskólar landsins sitt námsframboð, hægt var að spjalla við starfsfólk og stúdenta og skoða áhugaverða hluti tengda náminu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar setti daginn eftir fund með öllum rektorum íslenskra háskóla fyrr um daginn.

Sprengju-Kata sló í gegn

Mikið var um dýrðir og var meðal annars míniskúlptúrsmiðja á vegum Listaháskólans, hægt var að tæta í sundur tölvur og setja þær saman aftur með stúdentum úr HR og Sprengju-Kata HÍ sló í gegn hjá yngri kynslóðinni.

„Það er algerlega ómetanlegt að fá daginn hingað í HA þannig að verðandi nemendur og aðrir áhugasamir hafi tækifæri til að kynna sér nám allra íslensku háskólanna á einum stað. Svo á dagurinn bara vonandi eftir að festa sig í sessi hjá Akureyringum og Norðlendingum öllum,” segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Samstarf allra háskólanna sjö

Háskóladagurinn

Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn ásamt Háskólanum á Akureyri standa allir sameiginlega að undirbúningi Háskóladagsins sem hingað til var einungis haldinn í Reykjavík. Í kjölfarið er svo farin hringferð um landið þar sem Háskóladagurinn kemur við í völdum framhaldsskólum á landinu.

„Það er flott stemmning í undirbúningshópnum enda erum við búin að þekkjast í nokkur ár og því vinnum við þetta vel saman. Við eigum það sameiginlega markmið að vilja miðla til útskriftarárganga framhaldsskólanna allt það flotta háskólanám sem er í boði við íslenska háskóla,“ segir Katrín Árnadóttir, forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála við Háskólann á Akureyri og bætir við: „Hver háskóli hefur síðan sína sérstöðu og það er gott.“

Kynning frá fyrstu hendi

Reynslan hefur sýnt að fólk vill fá að spjalla við háskólanemendur sem eru nú þegar í námi – fá reynsluna svo að segja frá fyrstu hendi. „Við eigum svo flotta nemendur í HA sem eru til í að standa vaktina og kynna námið fyrir áhugasömum, það myndast skemmtilegur hópur sem sinnir kynningarstarfinu og við erum stolt af háskólanum okkar,“ segir Alda Rut Sigurðardóttir, formaður kynningarnefndar Stúdentafélagsins (SHA).

Á vef Háskóladagsins er hægt að kynna sér allar námsleiðir sem íslenskir háskólar bjóða uppá: www.haskoladagurinn.is

Nýjast