27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Leitað að fjármagni til bjargar Húsavíkurkirkju
Húsavíkurkirkja hefur löngum verið helsta prýði og kennileiti Húsavíkur enda varla hægt að ýkja fegurð þessa fornfræga húss sem var hannað af Rögnvaldi Ólafssyni arkítekt.
Ferðamenn hafa í áranna rás laðast að kirkjunni sem er án efa vinsælasta myndefni bæjarins síðustu áratugi. Kirkjan var vígð árið 1907 og er nú nýlokið við að mála hana að utan. Þá komu í ljós talsverðar skemmdir og fúi eins og Atli Vigfússon á Laxamýri skrifaði um í Morgunblaðinu í vikunni.
Tugmilljóna þörf
Vikublaðið ræddi við Guðberg Ægisson sem starfað hefur sem kirkjuvörður síðast liðin 9 ár. Hann segist hafa áhyggjur af stöðunni og ljóst megi teljast að ráðast þurfi í talsverðar framkvæmdir svo vel megi vera. Hann segist eiga von á að tugi milljóna þurfi til í endurbætur á kirkjunni sem og Bjarnahúsi, safnaðarheimili Húsavíkurkirkju. Guðbergur segir að hugmyndir séu uppi um að stofna hollvinafélag Húsvíkurkirkju til að afla fé til verksins en dregur ekki úr skoðun sinni að honum þyki sveitarfélagið ætti að sjá sóma sinn í því að hlaupa undir bagga.
„Fjórir krossar ofan á skipi kirkunnar, smíðaðir úr furu eru mjög skemmdir af fúa víðast hvar. Þeir eru undir miklu veðurálagi og það er hætta á að þeir falli í slæmu veðri,“ segir Guðbergur og bætir við að samkvæmt Guðmundi Halldórssyni málarameistara sem sá um málun á kirkjunni væri réttast að endurnýja krossana úr vönduðum harðvið.
Þá segir Guðbergur að þverbitar utan á kirkjunni séu flestir mjög illa farnir af fúa og að yfir þetta hafi verið málað í sumar til þess að allt liti vel út en að það væri skammgóður vermir, eins séu turnspýrur illa farnar. Einnig þurfi að einangra þak kirkjunnar að innan.
Þá bendir Guðbergur á að safnaðarheimilið, Bjarnahús sé farið að láta á sjá og að þar þurfi að ráðast í viðhaldsaðgerðir ef ekki á illa að fara. „Það er augljóslega kominn tími á að skipta um glugga enda farnir að leka í mestu rigningunum. Bárujárnsklæðingin er líka orðin ansi léleg og þyrfti að klæða bæði þak og veggi upp á nýtt,“ segir Guðbergur og bætir við að þakskegg og lista þurfi einnig að endurnýja.
Guðbergi er það mikið hjartans mál að kirkjunni sé sómasamlega haldið við enda sé hún eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna í bænum. „Ég veit til þess að það er leikur á netinu um allan heim þar sem Húsavíkurkirkja er einn af miðpunktunum,“ segir hann. Leikurinn snýst um að ferðamenn sem heimsækja Húsavík taki mynd af sér við kirkjuna og pósta inn á vefsvæði. Þá þurfa þátttakendur að svara spurningum og til þess að geta fundið svarið þurfa þeir að finna miða sem er falinn í eða við kirkjuna með vísbendingum. „Ég hef lent í því að ferðamenn komi inn í kirkjuna og spyrja mig hvort ég viti hvar miðann sé að finna,“ segir Guðbergur og bætir við aðspurður að hann hafi vitað af miðanum fyrir um tveimur árum. „Þá var hann falinn í litlum hólki undir suðurtröppunum.“
Aðgengismál í forgangi
„Það sem við erum að vinna með núna er að koma turninum í viðunandi horf, það er það sem þarf að gerast í sumar. Síðan er það aðgengið sem brennur á okkur“, segir Helga Kristinsdóttir, formaður sóknarnefndar Húsavíkursóknar með þungri áherslu í samtali við Vikublaðið og bætir við að það liggi svakalegur kostnaður í þessum framkvæmdum.
„Við förum af stað með samþykktir til þess að stofna hollvinafélag á næstunni. Ég er búin að fá mikið af símtölum og tölvupóstum frá fólki sem segist vera tilbúið til að leggja málefninu lið, hvort sem er í gegnum vinnu eða með því að leggja fram fjármagn. Ég er bjartsýn á að þessi vinna muni ganga vel og trúi því að það safnist inn fyrir þessu. Velviljinn er til staðar,“ útskýrir Helga.
Þegar á heildina er litið er þó talsvert meira verk fyrir höndum, sér í lagi ef Bjarnahús er tekið inn í myndina en það er staðsett við hlið kirkjunnar og opnað hefur verið á aðgengi í gegn um lóðina á milli húsanna tveggja.
Helga segir að ekki hafi verið leitað á náðir Norðurþings um að koma að verkefninu og lætur Helga í veðri vaka að erfiðlega hafi gengið að fá sveitarfélagið til samtarfs í tengslum við önnur verkefni á vegum kirkjunnar. „Ég veit ekki hvort það þjónar tilgangi að leita til Norðurþings nema sveitarfélagið hreinlega komi að þessu að fyrra bragði,“ segir hún.
Í sumar stóð Húsavíkursókn fyrir framkvæmdum í gamla kirkjugarðinum á Húsavík. Leitað var til sveitarfélagsins til að leggja til efnisflutninga og það tókst að lokum en það hafi tekið allt sumarið að fá það í gegn að sögn Helgu.
Þá nefnir Helga að það sé mikil kirkjulóð í kringum kirkjuna og að hugur hafi verið í sóknarnefndinni að bæta úr bílastæðamálum við kirkjuna. Sóknarnefnd sendi Norðurþingi erindi þar sem óskað var eftir samstarfi um að gera bílastæði við Ketilsbraut austan við kirkjuna suður að Bjarnahúsi. Helga segir að erindinu hafi verið hafnað.
Ásýnd kirkjulóðarinnar hefur breyst talsvert að undanförnu og er lóðin á milli kirkjunnar og Bjarnahúsi orðin mun opnari út að Garðarsbraut en Hlega segir að betur megi ef duga skal. „Við viljum að kirkjan bjóði fólk velkomið eins og segir í trúnni og sjáum fyrir okkur opið og fallegt kirkjutorg enda má fólk alveg koma inn á lóðina njóta fegurðarinnar,“ segir Helga og bætir við að áhersla sé lögð á áframhaldandi tengingu lóðarinnar við Bjarnahús.
Sveitarstjóri opinn fyrir samtarfi
Vikublaðið hafði samband við Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóra Norðurþings og spurði hann hvort til greina kæmi að Norðurþing hlutaðist til um nauðsynlegar framkvæmdir við kirkjuna. „Ég reikna með að óska eftir umræðu um þetta mál á sveitarstjórnarfundi núna á þriðjudaginn. Við munum örugglega taka einhverja umræðu um það. Þetta er auðvitað ákaflega leiðinleg og erfið staða. Húsavíkurkirkja er algjört kennileiti fyrir bæinn,“ segir Kristján en tekur fram að sveitarfélaginu beri þó engin lagaleg skylda til að koma að málefnum kirkjunnar. „En þegar svona er í pottinn búið þá mun auðvitað sveitarfélagið taka umræðu um hvort hægt sé að koma að þessu. Við munum auðvitað horfa í þessa stöðu með einhverjum lausnamiðuðum hætti. Hversu mikið, hvernig eða yfir höfuð hvort verður að koma í ljós,“ segir Kristján og bætir við að honum þyki ekki óeðlilegt að leitað sé til sveitarfélagsins þegar stendur fyrir þrifum að koma menningarverðmætum eins og Húsavíkurkirkju í viðunandi horf. „Það er ekki nema sjálfsagt að taka púlsinn á því. Samfélagið er auðvitað sveitarfélagið og ef það er forgangsatriði hjá fólki að nota fjármuni sveitarfélagsins í þetta verkefni, þá munum við skoða það; þó vissulega séum við sjálf með fasteignir á okkar snærum sem skorta gríðarlegt viðhald. En þetta er svona eitt af þessum heilögu véum sem við viljum hafa í lagi,“ segir Kristján.