Leikskólinn Hólmasól 5 ára

Það var mikið um dýrðir á leikskólanum Hólmasól á Akureyri í morgun en þá fögnuðu leiksskólabörn, starfsfólk, foreldrar og gestir, 5 ára afmæli skólans. Að auki fékk Hólmsól afhentan Grænfána Landverndar, sem dreginn var að hún á skólalóðinni. Áður  höfðu börnin fengið andlitsmálun, sett upp glæsileg höfuðföt, sem þau gerðu sjálf og farið í skrúðgöngu í kringum leikskólalóðina.  

Við fánastöngina tóku börnin lagið og Gunnlaug Friðriksdóttir fulltrúi Landverndar afhenti þeim Grænfánann formlega. Hún sagði að það væri stór áfangi fyrir börnin og starfsfólk, að hafa stigið skrefin sjö, sem þarf til að komast í hóp þeirra 200 skóla sem flagga Grænfánanum. Einnig afhenti hún Heiðrúnu Jóhannsdóttur starfsmanni á Hólmasól, skjal þess efnis að skólinn hefði fengið fánann afhentan til næstu tveggja ára. Börn og starfsfólk Hólmasólar hafa unnið að þessu verkefni undanfarið ár og hafa allir verið duglegir að tileinka sér og vinna eftir þeim vinnubrögðum sem þarf til að ná þessum áfanga. Grænfánaum er flaggað á nýrri fánastöng sem Akureyrarbær gaf.

Nýjast