Leikskólabörn eru vel meðvituð um hávaða en kenna öðrum börnum um.
Árið 2016 veitti norræni NORDplus sjóðurinn þremur raddfræðingum (frá Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð) tvískiptan styrk. Annars vegar var hann ætlaður til að gera rannsókn á áliti leikskólabarna á hávaða í leikskólum og til að kanna þekkingu/álit þeirra á rödd, raddheilsu og munnlegum samskiptum. Hins vegar var tilgangurinn til að semja kennsluefni til að fræða börn og leikskólakennara um rödd, raddheilsu og raddmenningu.
Rannsóknaraðferðirnar voru samræmdar hjá þessum þremur raddsérfræðingum nema í spurningaraðferðinni þar sem hóprýni (focus analyses) var gert í Finnlandi og Svíþjóð en íslensku börnin, 18 talsins, voru spurð einstaklingslega sömu spurninga og notaðar voru í hóprýninu. Rannsóknarniðurstöðum frá öllum þessum löndum bar saman í meginatriðum og voru ekki uppörvandi.
Heildarniðurstöður voru þær að börnin voru vel meðvituð um hávaða en kenndu almennt öðrum börnum um að öskra og búa til hávaða. Þau hávaðanum sem sem truflandi á munnleg samskipti og sögðust ekki geta ekki heyrt til annarra en voru miklu ómeðvitaðri um áhrif hávaða á rödd. Meðal íslensku þátttakendanna áttu 14 af 18 börnum erfitt með að heyra í öðrum börnum, 12 af 18 börnum áttu erfitt með að heyra í kennaranum sínum og 10 af 18 börnum sögðust oft þurfa að endurtaka sig. Athyglisvert er að 39% (7/18) af íslensku börnunum fundu stundum fyrir særindum í hálsi þegar þau komu heim úr leikskólanum. Þetta bendir til að þau hafi gengið fram af röddinni, mjög líklega með öskrum eða annarri misbeitingu raddar.
Neikvæð áhrif á málskilning
Rannsóknarniðurstöður frá öllum löndunum hringdu viðvörunarbjöllum þegar kom að hávaða sem almennt ríkir í leikskólum sbr. svör tveggja íslenskra barna sem sögðu: „úti þá mjög hátt. Þú mátt vera með hávaða úti“ og „hávaði. Illt í eyrunum“. Rannsóknir sýna að dvöl í of miklum hávaða getur haft neikvæð áhrif á málskilning og máltjáningu sem getur seinna meir endurspeglast í erfiðleikum með lestur og skrifað mál þar sem börnin hafa ekki náð nægilega góðum tökum á orðaforða.
Komum aðeins að röddinni og raddmenningu. Raddbönd eru EKKI með sársaukaskynjun og þess vegna er hægt að stórskemma þau með misþyrmingu. Skemmdin gæti leitt til varanlegs vanda þar sem afleiðing yrði hæsi. Viljum við vera ábyrg fyrir því að börn skemmi í sér raddbönd með góli og öskrum?
En af hverju erum við svona andvaralaus gagnvart öskrum og góli? Stafar það af þekkingarleysi? Er almenn vitneskja um hvað rödd er? Hvernig raddmyndun á sér stað og af hverju öskur hafa slæm áhrif á raddbönd? Niðurstöðum kannana víða um heim ber saman um að algengar raddveilur hjá kennurum megi almennt rekja til þekkingarleysis þeirra á rödd og raddheilsu.
Í ljósi þessa almenna þekkingarleysis á rödd átti NORDplus styrkurinn að styrkja gerð námsefnis sem miðaði að því að uppfræða leikskólabörn og kennara þeirra um rödd, raddbeitingu, raddheilsu og raddmenningu út frá heilsufræði- og siðferðilegu sjónarmiði. Einnig var markmiðið að kenna þeim um skaðsemi hávaða fyrir rödd, heyrn og samskipti og hvað við getum gert til þess að draga úr hávaðanum. Afraksturinn varð léttlestrarbókin Töfratapparnir og sérútgáfan Raddapadda sem ekki má skadda með kennsluleiðbeiningum fyrir leikskólakennara.
Greinin „The Others Are Too Loud! Children’s Experiences and Thoughts Related to Voice, Noise, and Communication in Nordic Preschools“ var birt í ritinu Frontiers Psychology, 21. ágúst 2019 á slóðinni | https://doi.org/10.3389/fpsyg.2019.01954. Ég ráðlegg fólki að lesa hana og þá sérstaklega umræðukaflann.