Leikfélag Hörgdæla frumsýnir Stelpuhelgi í kvöld

Hópurinn saman komin. Efri röð frá vinstri: Juliane Liv Sörensen(Hvíslari), Fanney Valsdóttir (Dot),…
Hópurinn saman komin. Efri röð frá vinstri: Juliane Liv Sörensen(Hvíslari), Fanney Valsdóttir (Dot), Lúðvík Áskelsson (Tom), Eyrún Arna Ingólfsdóttir (Ellie), Gunnar Björn Guðmundsson (leikstjóri) Neðri röð frá vinstri: Jenný Dögg Heiðarsdóttir (Meg), Brynjar Helgason (Stephen), Þorkell Björn Ingvason (Bubba), Freysteinn Sverrisson (Rick), Særún Elma Jakobsdóttir (Carol)

Leikfélag Hörgdælinga frumsýnir í kvöld, fimmtudagskvöldið  2. mars verkið Stelpuhelgi eftir Karen Schaeffer í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar. Um er að ræða stórskemmtilegan farsa í þýðingu Harðar Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra Bandalags Íslenskra Leikfélaga – og í fyrsta skipti sem verkið er sett upp hérlendis.  Sýningar verða á Melum í Hörgárdal.

 Gunnar Björn leikstýrir hjá  Leikfélagi Hörgdæla í annað sinni, en áður setti hann upp Gauragang með félaginu fyrir fáum árum. „Þau ákváðu verkið og höfðu samband við mig, ég var ekki lengi að slá til, þetta er frábær leikhópur, gott hús og  sterkt leikfélag,“ segir hann.

Í verkinu kynnast áhorfendur vinkonunum Meg, Carol, Dot ásamt Ellie dóttur Megs - sem hittast í bústaðnum hjá Dot yfir helgi með það fyrir augum að skemmta sér til hins ýtrasta lausar við alla karlmenn. Þær vinkonur eru saman í bókaklúbb og ætla að fara yfir bók sem áætlað var að lesa en kemur fljótt í ljós að sumir hafa lesið minna en aðrir. Vinkonurnar fá sér aðeins í tána og gengur það allvel. „Menningarferðin breytist fljótt í fjörugt partý og það koma upp hugmyndir um að fá nokkra karla sem þær eru í tygjum við til að koma, en það er óveður úti. Löggan blandast aðeins inn í  málið þannig að segja má að allt sem prýðir góðan gamanleik sé í boði í þessu verki,“ segir Gunnar Björn. „Við höfum fengið áhorfendur í salinn og það var mikið hlegið, allir skemmtu sér mjög vel, þannig að við eigum von á að alls konar hópar taki sig saman og komi í leikhús ferð í sveitina.“

 Hann segir að leikhópurinn hafi verið í sambandi við höfundinn, Karen Schaeffer sem sé himinlifandi yfir að verið sé að setja verkið upp norður á Íslandi.  Alls taka 8 leikarar þátt í sýningunni en hópurinn sem stendur á bak við uppsetningu er mun fjölmennari, að líkindum á bilinu 20 til 30 manns þegar allt er talið. 

 

 

Nýjast