Leghálsskimanir á Akureyri frestast líklega fram til áramóta

Unnið er að því að flytja leghálsskimanir á Heilsugæslustöðina á Akureyri
Unnið er að því að flytja leghálsskimanir á Heilsugæslustöðina á Akureyri

Unnið er að því að flytja leghálsskimanir á Heilsugæslustöðina á Akureyri en vegna lokana sökum Covid-19 og flutnings frumurannsókna frá Krabbameinsfélagi Íslands þá mun það dragast og verður líklega ekki fyrr en um áramót. Þetta kemur fram á vef HSN. Þar segir að þetta verði þó endurskoðað eftir miðjan nóvember ef smitum fækkar nægilega mikið á svæðinu.

Til þessa hafa leghálsskimanir farið fram á vegum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Eins og Vikublaðið greindi frá um miðan október voru leghálsskimanir á Akureyri felldar niður um óákveðinn tíma þar sem aðstaðan á Sjúkrahúsinu Akureyri til skimana stóð ekki lengur til boða. Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN sagði í samtali við Vikublaðið að þetta væri bein afleiðing kórónuveirufaraldursins.

Allar konur á ákveðnum aldri eru boðaðar reglulega í brjóstaskoðun og leghálsskoðun vegna krabbameins. Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hvetur konur sem finna til einkenna að leita til heimilislæknis. Send verður út tilkynning á heimasíðu HSN á Akureyri þegar bókanir hefjast í leghálsskimun. Konur sem eru í þéttara eftirliti vegna frumubreytinga munu verða í forgangi.

Á vef Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis segir að það skipti máli að konur eigi greiðan aðgang að skimunum heimabyggð, "og eigum við í góðu samtali við Leitarstöðina, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands um framhald og framtíð skimana hér á Akureyri. Við munum setja inn tilkynningar um þær breytingar sem verða um leið og þær berast."

 

Nýjast