Lara Wilhelmine Hoffmann ver doktorsritgerð sína við Háskólann á Akureyri
Lara Wilhelmine Hoffmann ver doktorsritgerð sína í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri í dag, miðvikudaginn 14. desember . Þetta er þriðja doktorsvörnin sem fram fer við Háskólann á Akureyri og fyrsta á Hug- og félagsvísindasviði. Doktorsritgerðin ber heitið: Aðlögun innflytjenda á Íslandi: Huglægar vísbendingar um aðlögun innflytjenda á Íslandi byggðar á tungumáli, fjölmiðlanotkun og skapandi iðkun. Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri kl. 13:00 og er öllum opin. Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Dr. Markus Meckl, prófessors við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Auk hans voru í Doktorsnefnd Þóroddur Bjarnason, prófessor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, og Yvonne Höller, prófessor við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri. Andmælendur eru Erika Hayfield, dósent í félagsvísindum við Sögu- og félagsvísindasvið Fróðskaparseturs Færeyja, og Þórólfur Þórlindsson, prófessor emeritus við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Dr. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms, og Birgir Guðmundsson, settur forseti Hug- og félagsvísindasviðs, stýra athöfninni.