30. október - 6. nóember - Tbl 44
,,Lærði meira á viku heldur en á heilum mánuði”
Þrátt fyrir að stúdentar Háskólans á Akureyri séu farnir í sumarfrí var mikið líf og fjör á göngum háskólans í síðustu viku en þá fór Vísindaskóli unga fólksins fram. Nýtt met var slegið í þátttöku en alls voru um 90 ungmenni skráð til leiks þar sem drengir voru í meirihluta nemenda. Greint er frá þessu á vef háskólans.
Á hverju ári hefur skólinn boðið nemendum upp á ný og krefjandi verkefni. Að þessu sinni voru yfirskriftir verkefnanna: Tónar og leikur, Að eiga hvergi heima, Laganna verðir og gæludýr, Vatnið er verðmæti og Áhrifavaldarnir í lífi okkar.
Fjölbreytt verkefni og skemmtilegir kennarar
,,Við gerðum ótrúlega fjölbreytta hluti en aðal sem ég man eftir er að blása í nautalungu, snerta hjarta og augu, hitta lögguhunda, búa til úkraínskar dúkkur og búa til fréttablað,” segir Sólveig Kjartansdóttir, 11 ára nemandi Vísindaskóla unga fólksins í ár.
Sólveig segir verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt og áhugaverð. ,,Laganna verðir og gæludýr fannst mér skemmtilegast, það var svo gaman að sjá lögguhundinn vinna og leita. Við lærðum um lyktarskyn dýranna og kynntumst því hvernig augun sjá öðruvísi í dýrum en fólki, sem var áhugavert. Svo voru þau með mjög stóran hundabangsa,” segir Sólveig.
Þetta er í níunda skipti sem skólinn starfar en hann er ætlaður ungu fólki á aldrinum 11 til 13 ára. Sólveig segist stefna á að fara aftur í Vísindaskólann næsta sumar. ,,Það kom mér á óvart hvað þetta var allt rosalega fjölbreytt og við lærðum svo rosalega mikið. Það voru mjög margir krakkar í skólanum og kennararnir voru ótrúlega skemmtilegir. Mér fannst ég eiginlega læra meira á viku heldur en á heilum mánuði í skólanum,” segir Sólveig.
Unga fólkið sem breytir heiminum
Vísindaskólanum lauk með formlegri útskriftarathöfn í Hátíðarsal háskólans föstudaginn 16. júní þar sem Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor HA ávarpaði nemendur skólans. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að fara út fyrir þægindarammann og að vera forvitin. ,,Ég vil hrósa ykkur fyrir að koma í Vísindaskólann, taka þátt og vera forvitin, sem er súper mikilvægt. Þið eruð nefnilega þau sem munið breyta heiminum og gera hann enn betri fyrir okkur öll. Aðal málið er að halda áfram að vera forvitin, fara út fyrir þægindarammann ykkar og gera jafnvel eitthvað sem lætur ykkur fá smá fiðrildi í magann og halda áfram að læra eitthvað nýtt. Við hér í Háskólanum á Akureyri getum ekki beðið eftir að fá ykkur aftur til okkar til að læra eitthvað spennandi,” sagði Díanna meðal annars í ávarpi sínu.
Herra Guðni Th. Jóhannesson tók þátt í útskriftarathöfninni þar sem hann heiðraði nemendur. Hann lét ekki þar við sitja heldur sló á létta strengi og svaraði hraðaspurningum nemenda um ólíklegustu hluti: Er erfitt að vera forseti? Hvað þýðir Th. í nafninu þínu? Finnst þér gaman í sundi? Þá fluttu nemendur ávörp í athöfninni og ung efnileg söngkona frá Dalvík, Írena Rut Jónsdóttir, heillaði gesti með söng.
Sigrún Stefánsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir héldu utan um framkvæmd skólans. Þær vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem styrkja skólann og gera það mögulegt að halda þátttökugjaldi í lágmarki.