Kvenfólk tilnefnt til þrennra Grímuverðlauna

Hundur í óskilum sló í gegn í Samkomuhúsinu með verkinu Kvenfólk.
Hundur í óskilum sló í gegn í Samkomuhúsinu með verkinu Kvenfólk.

Leikrit tvíeykisins Hunds í óskilum, Kvenfólk, hefur verið tilnefnt til þrennra Grímuverðlauna, en verðlaunahátíðin fer fram þriðjudaginn 5. júní. Verkið, sem var 323. sviðsetning Leikfélags Akureyrar, er tilnefnt í flokkunum leikrit ársins og tónlist ársins, auk þess sem kvennahljómsveitin Bríet og bomburnar, sem kemur fram í verkinu, er tilnefnd sem Sproti ársins, en þau verðlaun eru veitt einstaklingi eða hópi sem er talinn hafa sýnt sérstaka nýbreytni.

„Það má auðvitað segja að verkið allt sé nýbreytni, því það er tilraun til að grafast fyrir um hvers vegna svo fáar konur virðast hafa búið á Íslandi í gegnum tíðina og segja sögu þeirra fáu sem þó virðast hafa hýrst hér. Það er því einstaklega ánægjulegt að verk sem tekur á svo brýnu samfélagsmáli hljóti þá viðurkenningu að vera tilnefnt til Grímuverðlauna, en ekki síður að það hafi náð eyrum og augum svo margra, en vegna mikillar aðsóknar voru settar upp þónokkrar aukasýningar í Samkomuhúsinu.

Svo er það auðvitað sérstaklega skemmtilegt að tónlist verksins sé tilnefnd, því þetta ku vera í fyrsta skipti sem tónlist leikin á þvottavél fær tilnefningu,“ segir í tilkynningu frá Leikfélagi Akureyrar.

Nýjast