Kröfum Garðvíkur gegn Norðurþingi hafnað
Vikublaðið greindi frá því fyrir skemmstu að Garðvík ehf. hafi kært framkvæmdir við Garðarsbraut á Húsavík sem unnar voru af Bæjarprýði fyrir Norðuþing, til Kærunefndar útboðsmála.
SJÁ EINNIG: GARÐVÍK KÆRIR NORÐURÞING FYRIR AÐ SEMJA VIÐ BÆJARPRÝÐI
Garðvík fór fram á tafarlausa stöðvun samningsgerða á milli nefndra aðila og stöðvun framkvæmda.
Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til krafna kæranda um stöðvun framkvæmda og að stöðvuð verði frekari samningsgerð við Bæjarprýði ehf. en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar, þ.e. hvort Norðurþing hafi brotið gegn samningsaðila rammasamnings.
Málatilbúnaður Garðvíkur byggir að meginstefnu til á því að Norðurþingi hafi verið óheimilt að ganga til samninga við þau fyrirtæki sem komu að framkvæmdunum án þess að leita fyrst til aðila að rammasamningi nr. 17.09. Vísar Garðvík meðal annars til þess að engin opinber verðkönnun hafi farið fram og að ætla megi að samanlagður kostnaður framkvæmdanna sé yfir 5 milljónir króna. Norðurþing benti á að framkvæmdum við Garðarsbraut sé lokið og þegar af þeirri ástæðu geti krafa Garðvíkur um stöðvun samningsgerðar ekki náð fram að ganga.
Kærunefnd útboðsmála tók kæruna fyrir Samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila er framkvæmdunum lokið. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að fyrirhugað sé af hans hálfu að ganga til samninga við Bæjarprýði ehf. um önnur verk. Samkvæmt framangreindu verður að hafna kröfum kæranda í þessum hluta málsins.
Bréf Kærunefndar útboðsmála þar sem Norðurþingi var greint frá kærunni er dagsett 13. ágúst sl. en þá var framkvæmdunum lokið.
Þar sem framkvæmdum er lokið og engar upplýsingar liggja fyrir um að fyrirhugað sé að sveitarfélagið gangi til samninga við Bæjarprýði um frekari verk, þá hafnaði Kærunefnd báðum kröfum Garðvíkur. Úrskurðurinn var birtur 24. september sl. Úrskurður um brot á rammasamningi er að vænta innan tíðar.
Fréttin hefur verið uppfærð