20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kröfuganga við Borgarhólsskóla á Húsavík
Í þessari viku heimsótti listasmiðjan Barnabærinn 4.bekk í Borgarhólsskóla og unnu í samstarfi við þau hugmyndir krakkanna um hvernig Húsavík yrði ef krakkarnir réðu þar öllu!
Við lok smiðjunnar buðu krakkarnir í kröfugöngu sem endaði með gjörningi þar sem krakkarnir sáu um ræðuhöld og danspartý fyrir sveitarstjórn og aðra bæjarbúa.
Meðal hugmynda krakkanna er að stofna hér á Húsavík trampólíngarðinn Húsavíkurhopp, fá stúku á fótboltavöllinn og að sérstakur Já-dagur verði haldinn árlega í Húsavík, en þann dag mættu fullorðnir ekki segja nei við börnin sín!
BarnaBærinn er vinnusmiðja sviðslistaverkefnisins Krakkaveldis, en Hrefna Lind Lárusdóttir og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir listrænir stjórnendur Krakkaveldis leiddu vinnuna með börnunum og nýta sér aðferðir sviðslista til að búa til upplifunar-og þátttökuverk fyrir börn og fullorðna. Guðný Hrund Sigurðardóttir leikmyndahönnuður sér um sjónrænan þátt smiðjunnar í samstarfi við börnin, þar sem samsköpun og listrænt frelsi er falið þátttakendum. Mikið er lagt uppúr að sköpunarferlið sé valdeflandi fyrir börnin.
BarnaBærinn hefur þegar heimsótt Seyðisfjörð, Ólafsvík, Grundartanga, Stykkishólm,
Hellissand, Rif, Drangsnes og Þórshöfn í Færeyjum. Verkefnið nýtur styrks frá Barnamenningarsjóði Íslands.
Nánar verður fjallað um BarnaBæinn í Vikublaðinu sem kemur út á fimmtudag