„Kreppan“ notuð til að auka á ójöfnuð?
Verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnulífsins greinir á um hvort forsendur sem liggja að baki hófstilltum lífskjarasamningunum séu brostnar. Forystusveit vinnuveitenda taldi svo vera, þar til á þriðjudaginn í þessari viku. Verkslýðshreyfingin er á annarri skoðun og telur ekki nægar forsendur fyrir hendi til þess að slíta samningunum.
Ríkisstjórnin kynnti þennan dag aðgerðarpakka, eftir að vinnuveitendur, höfðu með málflutningi sínum, kynnt undir ófriði með því að hóta að boða til atkvæðagreiðslu um að slíta samningunum. Fljótlega eftir útspil ríkisstjórnarinnar drógu vinnuveitendur í land og blésu atkvæðagreiðsluna af. Þetta voru sem sagt bara innihaldslausir loftfimleikar og raddirnar í kórnum falskar.
Vandinn misjafn eftir atvinnugreinum og landshlutum
Vissulega eiga mörg fyrirtæki í miklum erfiðleikum og atvinnuleysi hefur aukist gríðarlega á undanförnum vikum og mánuðum. Verkalýðshreyfingin telur skynsamlegast í stöðunni að friður sé á vinnumarkaði við þessar aðstæður, þannig náist að standa vörð um almannahagsmuni á óvissutímum. Höfum hugfast að rekstrarvandi atvinnulífsins er afskaplega misjafn eftir atvinnugreinum og landshlutum. Við slíkar aðstæður er mikilvægast að beita sértækum aðgerðum, flatur niðurskurður er almennt ekki góður kostur í stöðunni og gerir lítið annað en að skapa óróa og enn frekari óvissu. Á Vesturlöndum er almennt viðurkennt að niðurskurður á krepputímum sé ekki skynsamleg leið, heldur leiði til aukins ójöfnuðar. Hagfræðingar vinnuveitenda ættu manna besta að þekkja þessar viðurkenndu staðreyndir.
Allt fari norður og niður
Ekki mun standa á verkalýðshreyfingunni við að koma að greiningu þeirra vandamála sem einstaka atvinnugreinar og landshlutar standa frammi fyrir, enda liggur í augum uppi að skynsamlegast er að mæta vanda þeirra sem hafa orðið illa úti. Vinnuveitendur vilja hins vegar nota kreppuástandið til að auka á ójöfnuðinn á vinnumarkaðinum og draga úr launahækkunum þeirra sem lægst hafa launin.
Rökstuðningur þeirra undanfarnar vikur veldur miklum vonbrigðum, ekki síst vegna þess að málflutningurinn byggist ekki á efnislegum rökum. Þessi söngur var líka hávær árið 2008, eyðslusemi almennings var þá sögð helsta ástæða „hrunsins“. Við munum t.d. eftir talinu um óþarfa kaup fólks á flatskjám! Líklega loka þeir líka eyrunum fyrir þeirri staðreynd að á síðustu fjórum árum hafa eignir 10% ríkustu Íslendinga aukist um 40%.
Ekki vinnuveitendum að þakka
Í sannleika sagt, efast ég hreinlega um að atvinnurekendur trúi sínum eigin orðum þessa dagana.
Sem betur fer halda hófsamir kjarasamningar a.m.k. í eitt ár til viðbótar og það er ekki vinnuveitendum að þakka.
-Björn Snæbjörnsson er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.