Krefjast þess að ríkið kaupi eignarhluta Akureyrarbæjar
Bæjarráð Akureyrar telur algjörlega ótækt að ríkisvaldið hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum Akureyrarbæjar um viðræður vegna húsnæðismála dvalar- og hjúkrunarheimila og hver framtíð umræddra mannvirkja verður. Krefst bæjarráð þess að ríkisvaldið bregðist við án frekari tafa og kaupi eignarhluta Akureyrarbæjar.
Fasteignir hjúkrunar- og dvalarheimila Akureyrarbæjar voru til umræðu á fundi bæjarráðs í gær. Fram kemur í bókun að vegna vanfjármögnunar af hálfu ríkisins hafi sveitarfélögin Akureyrarbær, Vestmannaeyjabær, Fjarðarbyggð og Höfn í Hornafirði ákveðið að endursemja ekki við ríkið um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila. Í kjölfarið ákvað ríkið að semja um rekstur þeirra annars vegar við einkaaðila og hins vegar við heilbrigðisstofnanir. Ríkið ákvað í tilfelli Akureyrarbæjar að semja við Heilsuvernd ehf. um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila á Akureyri og ákvað jafnframt að Heilsuvernd ehf. þyrfti ekki að greiða leigu vegna húsnæðisins. Þetta ákvað ríkið án samtals eða samráðs við Akureyrarbæ sem þó á stóran hluta þess húsnæðis sem um ræðir.