Kosningaspjallið: „Markmiðið er að efla sveitarfélög kjördæmisins“
Vikublaðið heldur áfram oddvitaspjallinu fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Nú er komið að Pírötum en það er Einar Brynjólfsson sem leiðir lista flokksins í NA-kjördæmi. Eftir stúdentspróf frá MA lá leið Einars og Helgu konu hans til náms í Þýskalandi þar sem þau bjuggu í átta ár. Þaðan héldu þau til Sauðárkróks í eitt ár. „En allar götur síðan höfum við átt okkar heimili í höfuðborg hins bjarta norðurs, Akureyri. Við eigum einn son, Atla Frey, sem er 29 ára gamall og búsettur í Reykjavík, og tvær dætur, Ásdísi Elfu, sem er 27 ára og búsett í Hveragerði og Lilju, sem er 14 ára heimasæta. Svo eigum við eitt barnabarn, hana Eygló Aríu sem er 4 ára,” segir Einar.
-Hvar ertu fæddur og uppalinn?
„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri. Ég er yngstur af fimm bræðrum, bjó lengst af á neðri brekkunni - í Bjarmanshúsi - og gekk í Oddeyrarskóla. Á sjöunda ári fór ég að dandalast með föður mínum í vegavinnu á sumrin, fyrst sem matvinnungur og síðar sem launamaður. Þessi tími var ævintýri líkastur, sérstaklega fyrstu árin. Skemmtilegast þótti mér að fara með vélamönnunum á kvöldin að smyrja tækin, dæla olíu á þau og þrífa, enda fékk ég oft að grípa í þau að launum, þó ég hefði augljóslega ekki aldur til þess. Mér reiknast til að ég hafi verið sumarmaður hjá Vegagerðinni í ein 20 sumur á 25 ára tímabili.”
-Hver eru þín helstu áhugamál?
„Samvera með fjölskyldunni, sagnfræði, bókmenntir, menning, stjórnmál, lögfræði, útivist og samfélagsmál eiga hug minn allan. Ég brenn fyrir óspilltu, frjálslyndu og sanngjörnu samfélagi jöfnuðar og tækifæra og er óhræddur við að gagnrýna það sem aflaga hefur farið, líkt og lesendur Vikublaðsins - og Vikudags - hafa tekið eftir undanfarin ár. Ég er líka ólatur við að benda á leiðir til að bæta samfélagið okkar.“
-Af hverju ætti fólk að kjósa Pírata?
„Fólk ætti að kjósa Pírata vegna þess að við erum óhefðbundið stjórnmálaafl sem byggir allar sínar ákvarðanir á gögnum og rökum og býr yfir samkennd með jaðarsettum hópum, hvaðan sem fólk kemur. Píratar eru óhræddir við breytingar, líka þær sem koma utan frá, lausir við þjóðrembu, þröngsýni og tækifærismennsku. Píratar eru með gríðarlega framsýna og græna kosningastefnu, sem ég hvet öll til að kynna sér á piratar.is Píratar vilja nýju stjórnarskrána með öllu sínu beina lýðræði, persónukjöri, auðlindum í eigu þjóðarinnar og fleira. Barátta Pírata gegn spillingu er einnig mjög góð ástæða fyrir því að fólk ætti að kjósa flokkinn. Baráttan er ekki bara sanngirnismál heldur líka grjóthart efnahagsmál, enda tapa Íslendingar háum fjárhæðum og fjölda tækifæra á hverju ári vegna sérhagsmuna og frændhygli. Krafa Pírata um gagnsæi og aðgengi að upplýsingum er besta vopnið í þeirri baráttu.“
-Hverjar eru ykkar áherslur?
„Á landsvísu er ný stjórnarskrá, sjávarútvegsmál, loftslagsmál, barátta gegn spillingu, heilbrigðismál og menntamál mér ofarlega í huga, auk þess sem ýmis sértæk áherslumál fyrir Norðausturkjördæmi á borð við samgöngur, atvinnumál og raforkuöryggi koma upp í hugann.
Hvað kjördæmið varðar má segja að byggðamál í víðum skilningi séu helstu baráttumál mín á komandi kjörtímabili. Helsta markmiðið er að efla sveitarfélög kjördæmisins þannig að þau verði sjálfbær, að íbúar þeirra njóti grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á og að skapa aðstæður sem tryggja aukna nýsköpun og framleiðslu í heimahögum.
Til að ná þessu fram þarf að efla sveitarfélögin, bæði með því að færa aukin völd heim í hérað og með því að láta skatta á borð við gistináttagjald, fjármagnstekjuskatt og virðisaukaskatt renna til þeirra, þar sem þeir falla til. Með því geta sveitarfélögin ráðist í fleiri verkefni sem henta hverjum stað, laus undan oki miðstýringar landsstjórnarinnar.“
-Hvaða tækifæri sérð þú í að efla atvinnulífið á Norðurlandi eystra?
„Meiri stuðningur við græna nýsköpun og framþróun er lykilatriði. Ég tel nauðsynlegt að styrkja græna sprota og búa til efnahagslega og skattalega hvata fyrir fyrirtæki að framleiða og selja umhverfisvænar vörur, sem og fyrir almenning að kaupa slíkar vörur. Tækifærin í grænum lausnum eru óteljandi og munu varða leiðina í atvinnu- og verðmætasköpun næstu áratugina. Ljósleiðaravæðing allra byggðakjarna og meira afhendingaröryggi raforku er forsenda öflugs, fjölbreytts og umhverfisvæns atvinnulífs. Við þurfum þó ekki bara að laða til okkar fyrirtæki og stofnanir, heldur líka að berjast fyrir því að halda þeim í héraði þannig að ekki fari fyrir þeim eins og fangelsinu á Akureyri.“
-Hvernig má hlúa betur að brothættum byggðum á svæðinu?
„Strandveiðar hafa heldur betur glætt brothættar byggðir byggðir lífi á svæðinu og það er stefna okkar Pírata að efla þær verulega, enda er þar um að ræða mjög einfalda aðgerð sem kemur sér vel. Við verðum að tryggja lágmarks þjónustu í þessum byggðum, sérstaklega hvað verslun og heilbrigðisþjónustu varðar. Forsenda eflingar allra byggða er að færa aukin völd heim í hérað og fjölga tekjustofnum þeirra, líkt og ég nefndi hér að ofan. Þá eru ótaldir grunninnviðirnar sem verða að vera í lagi, eins og húsnæði, heilbrigðisþjónusta og góðar net-, rafmagns- og samgöngutengingar.“
-Hvar liggja helst sóknarfæri hér í landshlutanum?
„Ferðaþjónusta mun augljóslega verða helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins, líkt og fyrir Covid, en hana er ekki hægt að aðskilja frá umhverfismálum. Öllum er ljóst að innviðir landsins eru ekki í stakk búnir til að taka við þeim fjölda ferðamanna sem hingað mun sækja. Við þurfum að veita miklu fé til vegagerðar, til framkvæmda við þær fjölmörgu náttúruperlur sem verða fyrir ágangi ferðamanna og til að koma upp viðunandi salernisaðstöðu um landið. Þá þurfum við að dreifa álaginu sem hlýst af þessum fjölda ferðafólks með því að beina því um landið, t.d. með því að efla og markaðssetja flugvöllinn á Akureyri (og Egilsstöðum ef við tölum um kjördæmið í heild sinni). Í því samhengi má segja að Akureyrarflugvöllur hafi lengi verið eitt af olnbogabörnum íslenskra flugvalla. Á sama tíma og tugum milljarða er varið í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli er Akureyrarflugvöllur látinn mæta afgangi. Það er með öllu ólíðandi að ekki sé lögð meiri áhersla á að fjölga gáttum inn í landið.
Traustari raforkuflutningar geta lagt öflugan grundvöll fyrir fjölbreytt og grænt atvinnulíf og öfluga nýsköpun sem fylgir fjórðu iðnbyltingunni. Fjölga þarf sérfræðistörfum og störfum í skapandi greinum, auka framboð í námi á framhalds- og háskólastigi og aðgengi að því, og svo mætti lengi telja.“