Klemma á byggingamarkaði meðan ástandið er erfitt
„Það er eitthvað til af nýjum óseldum íbúðum á Akureyri, staðan er þannig að mikil óvissa er ríkjandi og margir halda að sér höndum,“ segir Heimir Kristinsson varaformaður Byggiðnaðar, félags byggingamanna. Mikill samdráttur er í fjölda nýrra framkvæmda og nam hann um 68% á milli ára á landsvísu að því er fram kemur í nýjustu talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
„Byggingamarkaðurinn er í klemmu og það er auðvitað ekki skrýtið. Það fara sér allir hægt þegar ástandið er með þeim hætti í efnahagsmálum hér á landi og raun ber vitni. Það á við um verktaka sem fjármagna sínar framkvæmdir með lánsfé sem alls ekki er fýsilegt að taka þegar vextir eru mjög háir eins og núna, það vilja fæstir skuldsetja fyrirtækin sín um of. Fólk sem undir eðlilegum kringumstæðum hefði hug á að skipta um húsnæði, fara í minna eða stærra, eða kaupa nýtt sýnir einnig varkárni og ég hef á tilfinningunni að það séu margir að bíða. Það eru líka margir sem hafa alls ekki efni á að kaupa nýjar íbúðir eins og sakir standa,“ segir Heimir og nefnir að alls óvíst sé hvenær staðan lagist.
Við búið sé að þegar ástandið skánar og verktakar og almenningur fara af stað á ný af fullum krafti megi búast við að sagan endurtaki sig. Þetta sé vítahringur sem erfitt sé að komast úr.
„Þessi ófyrirsjáanleiki sem er ríkjandi um þessar mundir er mjög slæmur, óvissan um hvernig mál þróast er mikil, sem dæmi veit enginn nú hvernig Seðlabankinn hyggst taka á þeirri sjóhengju sem vofir okkur og mun falla, hvernig þetta allt saman eigi að enda,“ segir Heimir. Það sé bankans og stjórnvalda að ráða niðurlögum verðbólgunnar og vinna að bættu ástandi efnahagsmála, „og auðvitað viljum við sjá einhverja aðra leið út úr vandanum en að kreista niður launahækkanir frá almennu launafólki.“
Engar uppsagnir
Heimir segir að þrátt fyrir að staðan hafi almennt oft verið betri, sé nokkur bjartsýni ríkjandi norðan heiða nú þegar siglt er inn í veturinn. Það hafi ekki komið til uppsagna hjá byggingafyrirtækjum og hann hafi ekki heyrt af að þær séu yfirvofandi. „Það er ákveðinn léttir og vekur bjartsýni á að menn komist í gegnum þetta ástand, þó vissulega séu blikur á lofti. Það eru mér vitanlega allir með næg verkefni, en halda líka vissulega að sér höndum margir á meðan staðan er eins og hún er.