KK og Skálmöld á Græna hattinum

KK heldur tónleika á laugardagskvöldið.
KK heldur tónleika á laugardagskvöldið.

Skálmöld heldur tvenna tónleika á Akureyri á Græna hattinum um helgina. Fyrri tónleikarnir verða í kvöld, fimmtudagskvöldið 11. apríl kl. 21.00 og annaðkvöld, föstudaginn 12. apríl kl. 22.00.

Eftir mær taumlausa spilamennsku erlendis til að fylgja eftir nýjustu plötu sinni koma Skálmaldarliðar heim og spila ferna tónleika, tvenna í Reykjavík og tvenna á Akureyri. Síðan fimmta plata þeirra, Sorgir, kom út á haustmánuðum hafa þeir varla staldrað við en ætla að loka vetrartúrnum hér á landi. „Munu ný lög hljóma í bland við eldri á alvöru þungarokkstónleikum, fjarri öllum sinfóníuhljómsveitum og stórum tónleikasölum, hér er Skálmöld í sínu náttúrulega umhverfi,“ segir í tilkynningu. Áhugasömum er bent á að fleiri Skálmaldartónleikar eru ekki á dagskrá hér á landi á þessu ári. 

Á laugardagskvöldið 13. apríl mun Kristján Kristjánsson, eða KK eins og flestir þekkja hann, stíga á svið á Græna hattinum. KK hefur samið og leikið lög inn hljómplötur í áraraðir, samið tónlist fyrir leikrit, bíómyndir og sjónvarpsþætti, auk þess sem hann hefur leikið eitt og eitt hlutverk sjálfur. Hann hefur lengi dreymt um að flytja úrval af lögum sínum sem krefjast hljómsveitar, en fram að þessu hefur hann oftast verið einn á ferð með gítar og munnhörpu að vopni.

Nú mun KK láta þennan draum sinn rætast og hefur safnað saman góðum mönnum í föruneyti sem hefur ferðast með honum vítt og breitt um landið. Tónleikaröðin hófst í Bæjarbíó í Hafnarfirði laugardaginn 23. mars og endar svo á Græna hattinum. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

Nýjast