27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Kísilverksmiðja PCC á Bakka stefnir á kolefnishlutleysi
Landsvirkjun og þýska fjárfestingafélagið PCC SE munu rannsaka möguleika þess að fanga og nýta útblástur frá kísilmálmsverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Útblásturinn hyggst félagið nýta til framleiðslu á grænu metanóli. Viðskiptablaðið greindi frá þessu á vef sínum.
Þar kemur fram að verksmiðjan á Bakka losi um 150 þúsund tonn af koltvísýringi árlega en föngun og nýting endurnýjanlega kolefnisins til að framleiða grænt metanól myndi gera verksmiðjuna kolefnisneikvæða.
Bent er á í tilkynningu að grænt metanól og annað rafeldsneyti geti komið í stað jarðefnaeldsneytis í skipum. „Fjöldi fjárfesta og fyrirtækja veðjar nú á að grænt metanól geti spilað lykilhlutverk í orkuskiptum skipaflotans,“ segir í tilkynningunni sem vísað er til í Viðskiptablaðinu.
Fram kemur að framleiðsla á grænu metanóli krefjist endurnýjanlegra kolefnagjafa frá kísilverksmiðju PCC á Íslandi og endurnýjanlegrar orku frá aflstöðvum Landsvirkjunar. Ferlið við myndun metanóls kalli á inntak hreins koltvísýrings og vetnis frá rafgreiningu vatns, þar sem eina aukaafurðin er súrefni og vatn.
„Að umbreyta koltvísýringi úr úrgangi í verðmæta auðlind með því að nýta og framleiða eldsneyti fyrir iðnað mun hjálpa til við að draga úr loftslagsbreytingum og hraða umskiptum í hringrásarhagkerfi.“
PCC SE stefnir að því að kísilverksmiðja þeirra á Húsavík verði kolefnishlutlaus með því að skipta út kolefnis-afoxunarefnum í framleiðslunni fyrir endurnýjanlega valkosti.
„Við erum reiðubúin að taka næsta skref á Bakka, fanga kolefnið sem losnar við framleiðslu okkar og nýta það til orkuskipta. Við stefnum nú þegar að kolefnishlutleysi í rekstrinum en framleiðsla græns metanóls sem gæti nýst sem eldsneyti á skip væri merkur áfangi,“ segir Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC SE.
„Við hjá Landsvirkjun fögnum þessu tækifæri til að vinna með góðum viðskiptavini að grænni lausn. Orkuskipti eru aðkallandi og ekki síst hjá skipaflotanum. Ef við náum að nýta endurnýjanlegu orkuna okkar til að vinna grænt metanól á Bakka eru við einu skrefi nær grænni framtíð,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar