Kirkjustarf á Húsavík með óhefðbundnu sniði
Samkomutakmarkanir Landlæknis hafa haft talsverð áhrif á kirkju starf á Húsavík. Í samtali við Vikublaðið sagði Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur að fyrst og fremst hefði þetta áhrif á athafnir. „Það eru fjórar fermingar núna í ágúst. Upphaflega áttu þær að vera tvær en við skiptum upp hópunum. Þetta eru þrjú og fjögur börn sem ég er að ferma í einu og hvert fermingarbarn má bjóða fyrirfram ákveðnum fjölda gesta. Þannig að þetta er mjög fátt í kirkjunni,“ segir hún.
Fjöldatakmarkanir leyfa að allt að 100 manns komi saman í einu en til þess að geta virt tveggja metra regluna segir Sólveig Halla að það sé hægt að taka á móti um það bil 80 manns í athafnir en þá er miðað við að hjón eða fjölskyldur geti setið saman. Á jarðarförum sé það eitthvað færra vegna kirkjukórsins.
„Síðan takmarkanir voru settar á er búið að streyma öllum jarðarförum nema einni á netinu,“ segir hún og bætir við að fólk virðist vera ánægt með að geta horft á streymi á Facebooksíðu kirkjunnar.
Sáluhjálp og ráðgjafarviðtölum hefur ekki farið fækkandi vegna faraldursins enda segir Sólveig Halla að auðvelt sé að virða sóttvarnarreglur í viðtölum. „Ég finn að róðurinn er farinn að þyngjast hjá fólki. Það sem gerist í svona aðstæðum er að fólk fer að hafa áhyggjur af fjármálum. Það hefur áhrif á líðan okkar og samskipti inni heimilum. Það má segja að almennt sé farið að gæta að fólk finni fyrir meira álagi og áhrifin eru víðtæk m.a. á andlega líðan.“
Í síðustu viku kláraðist að mála kirkjuna en að það er yfirleitt gert í skorpum yfir nokkur sumur. Þá eru einnig hafnar framkvæmdir við safnaðarheimilið í Bjarnahúsi. Þar er verið að fegra í kringum húsið en jafnframt að bæta aðgengi fyrir fatlaða.
/epe