Kirkjan og innbúið tryggð fyrir 30 milljónir
Texti: Margrét Þóra Þórsdóttir
mth@vikubladid.is
-Líkur á að skammhlaup í rafmagnstöflu hafi valdið eldsvoðanum
Miðgarðakirkja í Grímsey sem brann til kaldra kola í liðinni viku var ásamt innbúi tryggð fyrir 30 milljónir króna. Alfreð Garðarsson formaður sóknarnefndar segir að einhugur sé meðal íbúa í eynni að byggja aðra kirkju. Hann segir Grímseyinga þakkláta fyrir góð viðbrögð og hlýhug sem þeir hafi fundið meðal landsmanna. Söfnun vegna byggingar á nýrri kirkju hófst þegar eftir eldsvoðanna og hafa safnast um 4 milljónir króna.
Íbúafundur var í Grímsey í gær þar sem mættu á milli 20 og 30 manns til að fara yfir stöðuna og næstu skref. „Það eru allir sammála um að byggja nýja kirkju, en það þarf að mörgu að hyggja. Flestir vilja svipaða kirkju en ekki alveg eins og sú sem var. Ný kirkja þarf að vera aðeins breiðari en sú gamla, hún var of þröng og það er erfiðleikum bundið að fara úr henni með kistur svo dæmi sé tekið,“ segir Alfreð.
Dapurlegt að horfa á sárið
Mörg verkefni séu fyrirliggjandi, eitt þeirra sé hreinsunarstarf í brunarústunum. Veður hamlaði fyrri hluta vikunnar að hægt væri að hefja þau störf. „Fólki þykir dapurlegt að horfa á sárið sem eldsvoðinn skildi eftir sig, en flestir eru að jafna sig á þessu áfalli og horfa fram á veginn,“ segir Alfreð. Enn á eftir að fara yfir garðinn og skoða tjón sem varð á legsteinum og krossum í námunda við kirkjuna.
Kirkjan sjálf og innbú hennar voru tryggð fyrir 30 milljónir króna, en Alfreð segir að Grímseyingar séu enn ekki komnir á þann stað að hafa reiknað út hversu mikið ný kirkja með öllu tilheyrandi hugsanlega kosti. „Við gælum við það að undirbúningur verði unnin í vetur og strax næsta sumar verði hægt að hefjast handa við að reisa nýja kirkju. En þá þarf allt að ganga upp,“ segir Alfreð. Á meðan ekki er kirkja í Grímsey sér hann fyrir sér að nauðsynlegar athafnir verði í félagsheimilinu Múla.
Alferð segir allt bendi til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni. Líklegast sé að leki hafi orðið sem olli skammhlaupi í rafmagnstöflu. „Það er lítið sem ekkert eftir af húsinu, allt rústir eina og lítið sem hægt er að rannsaka, en menn telja að þetta sé líklegast skýringin,“ segir hann en enginn hafi komið í kirkjuna nokkra daga fyrir brunann eftir því sem best sé vitað.