Kastljósið þurfi stöðugt að vera á réttindi barna

Skjáskot úr kynningarmyndbandi UNICEF um barnvænt sveitarfélag. Hildur Lilja Jónsdóttir og Telma Ósk…
Skjáskot úr kynningarmyndbandi UNICEF um barnvænt sveitarfélag. Hildur Lilja Jónsdóttir og Telma Ósk Þórhallsdóttir segja frá verkefninu frá sjónarhóli ungmenna.

Vinna er að hefjast við endurnýjun á viðurkenningu Akureyrarbæjar sem barnvæns sveitarfélags. Akureyrarbær fékk slíka viðurkenningu frá UNICEF í maí 2020, fyrst íslenskra sveitarfélaga, og gildir hún í þrjú ár. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.

„Til þess að halda titlinum þarf stöðugt að vera með kastljósið á að tryggja réttindi barna með fræðslu og að raddir þeirra heyrist, stuðla að jafnræði barna í samfélaginu, tryggja merkingarbæra þátttöku þeirra og að barnvæn nálgun sé leiðarstef í allri starfsemi og stefnumörkun bæjarins,“ segir Sigríður Ásta Hauksdóttir, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags.

Sigríður Ásta segir að stóru skrefin framundan séu meðal annars að kortleggja stöðu og velferð barna með nýju mælaborði sem vonir standa til að líti dagsins ljós síðar á árinu. Réttindafræðsla til barna bæjarins, starfsfólks sveitarfélagsins og almennings er ofarlega á baugi, ásamt þátttöku ungmennaráðs í málefnum barna, en Stórþing ungmenna í Hofi verður haldið í haust. „Auk þess er er mikilvægt að fylgja eftir núverandi aðgerðaáætlun og móta nýja vegna endurnýjunar á viðurkenningunni barnvænt sveitarfélag á vordögum 2023,“ segir Sigríður Ásta.

Nýtt kynningarmyndband UNICEF um verkefnið barnvænt sveitarfélag á Akureyri:

 

Nýjast