27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Karamella og köngull - Jólatrésskemmtun í Kjarna
Dansað verður í kringum jólatré við grillhúsið á Birkivelli nú kl. 14 í dag. Samkoman er samstarf jólasveina, Skógræktarfélags Eyjafjarðar og Félags eldri borgara á Akureyri.
Á vígsludegi Birkivallar árið 2017 var rauðgrenijólatrénu fína plantað gagngert til að dansa í kring um það í fyllingu tímans. Því hefur nú vaxið fiskur um hrygg og tímabært að það fái að sinni hlutverki sínu
Jólasveinarnir hafa lofað að gefa hverju „þægu barni“ gómsæta karamellu og köngul af skógartré, einnig verður í boði rjúkandi súkkulaði fyrir alla sem og ketilkaffi fyrir fullorðna. Félagar úr Félagi eldri borgara leiða söng og dans og miðla þannig „Gekk ég yfir skóg og land“ til komandi kynslóða. Hljómsveitin Birkibandið leikur svo undir herlegheitin .
Fjölmargir nýta göngu, hjóla og skíðaleiðir í Kjarnaskógi sér til heilsubótar á degi hverjum. „Við lítum á þetta sem venjulegan dag í skóginum okkar en langar að gera þessa jólatrésskemmtun að árlegum viðburði. Hvetjum foreldra, afa og ömmur osfrv til að njóta útivistar með börnunum úr fjölskyldunni í aðdraganda jóla, staldra við stutta stund á Birkivelli, fá sér snúning kring um jólatréð og kankast aðeins á við jólasveinana á leið ykkar um skóginn,“ segir í tilkynningu frá Skógræktarfélagi Eyjafjarðar. Aðgangur er ókeypis en fólk hvatt til að klæða sig eftir veðri.