Kaldbakstjarnir verða áfram friðaðar

Kaldbakstjarnir. Mynd/Norðurþing
Kaldbakstjarnir. Mynd/Norðurþing

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings tók fyrir erindi frá Sigurjóni Benediktssyni að Kaldbaki. Í erindinu hvetur hann sveitarstjórn til að endurvekja friðun lands og vatna í sveitarfélaginu með tilliti til fuglalífs.

„Þó allt bendi til þess að raddir vorsins þagni einn daginn er enn að koma vor hér í Norðurþingi. Í tilefni af því að ég sá fyrstu kríuna hér við Kaldbakstjarnir í morgun vil ég hvetja ráðamenn bæjarins að endurvekja friðun lands og vatna í sveitarfélaginu þannig að fuglar geti átt hér skjól og skemmtun. Gott að byrja á Kaldbakstjörnum. Auglýsa þarf að fuglar og egg þeirra séu friðuð og brotaaðilar verði látnir svara til saka brjóti þeir reglur sem um landið gilda. Öllum hefur ávallt verið heimilt að skoða og njóta náttúrunnar við Kaldbakstjarnir og svo verður áfram vonandi,“ segir Sigurjón í erindinu. Þá bendir hann á að fugla og náttúruskoðun sé stór þáttur í komu ferðamanna hingað og það fari ekki saman að einhverjir fari rænandi og ru[pp]landi um land sveitarfélagsins. „Hvort sem umræddir fuglar eru friðaðir eða ekki samkvæmt öðrum lögum væri til fyrirmyndar að friða allt fuglalíf hér.“

Vorið 2003 bannaði þáverandi bæjarstjórn Húsavíkur alla eggjatöku í landi Kaldbaks og var sú friðun auglýst árlega til margra ára. Nú er langt síðan friðun svæðisins hefur verið auglýst sérstaklega. Í gildandi aðalskipulagi er umhverfi Kaldbakstjarna skilgreint sem hverfisverndarsvæði Hv4 og mikilvægt búsvæði fugla.

Skipulags- og framkvæmdaráð lagði til við sveitarstjórn að öll fuglaveiði og eggjataka í umhverfi Kaldbakstjarna sunnan Húsavíkur verði áfram óheimil. Afmörkun friðaðs svæðis sé til samræmis við afmörkun hverfisverndarsvæðis Hv4 í gildandi aðalskipulagi. Framkvæmda- og þjónustufulltrúa verði falið að auglýsa bannið. Ákvörðunin gildi þar til annað hefur verið ákveðið. Sveitarstjórn samþykkti tillöguna.

Nýjast