Jólaplata Hymnodiu fær góðar viðtökur

Jólaplata kammerkórsins Hymnodiu á Akureyri, sem kom út í nóvember, hefur fengið góðar viðtökur og lætur nærri að helmingur upplagsins sé kominn í sölu og dreifingu nú þegar. Á plötunni eru jólalög frá ýmsum öldum, innlend og erlend, en líka nýjar tónsmíðar íslenskra tónskálda. Meðal annars eru þrjú lög eftir Daníel Þorsteinsson, píanóleikara í Eyjafjarðarsveit, sem ekki hafa komið út áður á plötu og enn fremur tvö áður óútgefin verk eftir Michael Jón Clarke, söngkennara og tónskáld á Akureyri. Platan er spunnin saman í eina samfellda heild með hljóðfæraleik sem gefur henni nokkuð óvenjulegan blæ en hátíðlegan. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins gaf plötunni fjórar stjörnur á dögunum.

Á laugardaginn heldur kórinn útgáfutónleika í Akureyrarkirkju.  Tónleikarnir hefjast klukkan 21. Auk kórsins koma fram hljóðfæraleikararnir Lára Sóley Jóhannsdóttir sem leikur á fiðlu, Emil Þorri Emilsson slagverksleikari, og Eyþór Ingi Jónsson sem spilar á harmóníum en hann er líka stjórnandi Hymnodiu.


Nýjast