Jólaaðstoð Velferðarsjóðs Þingeyinga eykst á milli ára
Velferðarsjóður Þingeyinga stendur fyrir jólaúthlutunum eins og undanfarin ár og er þörfin síst minni en í ár.
Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur segir að því miður sé enn mikil þörf á jólaaðstoð því það séu mörg heimili sem ná ekki endum saman í jólamánuðinum en alls hafa sjóðnum borist 55 umsóknir um aðstoð. Það séu bæði einstaklingar og fjölskyldur. „Það er aukning á umsóknum og þetta er það mesta sem ég hef séð síðan 2019 þegar ég kom hingað til Húsavíkur,“ Sólveig Halla og bætir við að hún sé þakklát fyrir samhuginn í samfélaginu.
Meðlimir í Kiwanisklúbbnum Skjálfanda munu deila út matarkössum sem þeir gefa í samstarfi við Norðlenska, þá mun Norðlenska og svo úthlutum við inneignarkortum í Netto og fiskeldið í Haukamýri gefur einnig fisk. „Það er mjög ánægjulegt að fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar eru að styrkja sjóðinn. Og nú var ég að frétta að Tónasmiðjan gefur hálfa milljón en þau héldu jólatónleika í Húsavíkurkirkju nýverið. Það breytir mjög miklu því bæði nóvember og desember eru mjög þungir hjá mörgu fólki.
Dásamlegt starf Tónasmiðjunnar
Jólin þín og mín tónleikasýning Tònasmiðjunnar og gesta var haldin í fjórða skipti og náði hápunkti sínum um sl. helgi með glæsilegum tónleikum. Hátíðleg stund í Húsavíkurkirkju með um 35 flytjendur á ýmsum aldri og frábærum tónleikagestum.
„Þetta verkefni er búið að vera afar skemmtilegt og um leið krefjandi ferðalag, sem náði hápunkti sínum með þessari góðu stund, mikið skipulag og margar æfingar liggja að baki sem skiluðu sér svo sannarlega. Hópurinn okkar stóð sig frábærlega og það gleður okkur mikið að geta um leið styrkt gott málefni. Við styrktum að þessu sinni Velferðarsjóð Þingeyinga um 500 þúsund kónur,“ skrifar Elvar Bragason sem staðið hefur í stafni Tónasmiðjunnar frá upphafi og bætir við að peningarnir hafi þegar verið lagðir inn á reikning sjóðsins.
„Við erum afar stolt af að stýra Tònasmiðjunni núna sjötta árið hér á Húsavík og hefur starf okkar stöðugt verið að stækka, þar sem við komum saman einstaklingum á öllum aldri, gerum eitthvað lifandi og skemmtilegt saman, með jákvætt forvarnargildi og gefum af okkur þannig til samfélagsins og til góðra málefna,“ skrifar Elvar enn fremur. Tónasmiðjan hefur á þessu ári styrkt góð málefni um samtals 1200 þúsund.
Tónasmiðjan er heldur ekki hætt að gefa af sér á þessu ári heldur mun það góða fólk gefa íbúum Hvamms og Skógarbrekku góðar gjafir fyrir jólin en það er hefð sem teygir sig fjögur ár aftur í tímann.
Salka ágóða af jólasölu
Þá tók Sólveig Halla nýlega við styrk frá Sölkuveitingum fyrir hönd velferðarsjóðs Þingeyinga. Styrkurinn var ágóði frá veitingasölu á aðventuhátíðinni á Húsavík í byrjun mánaðar. „Við vorum í tengslum við aðventuhátíðina Jólabærinn minn, með opið á planinu fyrir utan hjá okkur að selja veitingar,“ segir Guðrún Þórhildur Emilsdóttir veitingamaður á Sölku en alls söfnuðust 305 þúsund krónur sem runnu í Velferðarsjóð Þingeyinga.
Enn hægt að styrkja sjóðinn
Sólveig Halla segir að Velferðarsjóður taki enn við framlögum enda sé ekki vanþörf á. Besta leiðin til þess er að leggja beint inn á reikning sjóðsins eða afhenda sóknarpresti eða formanni sjóðsins.
„Ég vil koma á framfæri kæru þakklæti til allra sem hafa styrkt sjóðinn, þetta kemur að mjög góðum notum. Því miður þurfum við enn þá á honum að halda en sem betur fer er samfélagshjálpin enn til staðar,“ segir Sólveig Halla að lokum.
Hægt er að styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga með því að leggja inn á eftirfarandi reikningsnúmer: 1110-05-402610
Kennitala: 600410-0670.