Jól, áramót og gæludýr – það sem ber að varast!

Það er að mörgu að hyggja fyrir gæludýraeigendur yfir jól og áramót   Mynd  Vikublaðið
Það er að mörgu að hyggja fyrir gæludýraeigendur yfir jól og áramót Mynd Vikublaðið

Það er að mörgu að hyggja fyrir gæludýraeigendur yfir jól og áramót margt spennandi en kannksi ekki eins heppilegt fyrir gæludýrið. Þau á Dýraspítalanum  Lögmannshlíð tóku saman heilræði sem þau birtu á Facebooksíðu þeirra

 

Matur: Það er mikið af góðum mat og alls kyns kræsingum á heimilinu sem þarf að passa að dýrin komist ekki í. Þá geta þau fengið alvarlegar meltingartruflanir, uppköst og þarmabólgur. Rúsínur í kökum, grautum og brauði eru sérstaklega hættulegar og geta leitt til nýrnabilunar. Súkkulaði er líka varasamt, smábiti, 50 grömm, getur valdið eitrun hjá smáhundum. Kjötbein eru hættuleg hundum sem ekki eru vanir þeim, geta valdið alvarlegum stíflum í meltingarvegi. Gleymið ekki pökkunum, hundar með sín næmu nef finna ætar gjafir og stela þeim og éta með umbúðum og skrautborðum sem er ekki gott.

 

Gestir: Jólin er hátíð fjölskyldu og vinaheimsókna, oft er fjölmenni á heimilinu og glatt á hjalla. Sum gæludýr njóta athyglinnar en öðrum finnst þetta mjög stressandi og verða hrædd. Leyfið þeim að vera afsíðis á öruggum stað og hafa eitthvað gott að naga.

Vetrargöngur: klaki og snjór getur hlaðist upp á milli tánna, sérstaklega hjá hundum með loðna fætur. Möl og snjór mynda líka klakahröngl sem særir hundinn. Skolið loppurnar vel með volgu vatni þegar heim er komið. Úlpur og peysur eru alveg nauðsynlegar fyrir þunnhærða hunda í kuldanum.

Passa hæfilega fóðrun! Dýrin eru meira inni yfir jólin og kaldasta tíma ársins. Varist offóðrun – ofþyngd gæludýra veldur ýmsum sjúkdómum eins og hjartveiki, sykursýki og gigt. Látið dýrin naga meira og éta minna!

 

Skreytingar: Alls kyns skraut, greinar og jólatré eru freistandi leikföng fyrir gæludýr. Passa að dýrin nagi það ekki, þau eyðileggja þá ekki bara fallegar skreytingar heldur geta líka gleypt eða skorið sig á greinum og brotnum jólakúlum. Uppskurðir vegna aðskotahluta í maga og þörmum eru algengari um jól og áramót en annars.

 

Plöntur: Látið dýrin alls ekki naga greinar og jólaplöntur, margar þeirra eru eitraðar fyrir dýr eins og liljur og jólarósir. Einnig geta dýrin særst illa í munni undan barrgreinum ( og jafnvel gleypt greinar).

 

Áramót: flest dýr eru eðlilega hrædd við sprengingar, blys og hvell hljóð. Hafið dýrin inni um áramótin meðan sprengingarnar standa yfir. Hafið þau í ró og gjarnan tónlist til að dreifa huganum. Mörg dýr þurfa lyf gegn hljóðhræðslu til að fá ekki streitueinkenni og best er að nálgast þau seinni hluta desember þar sem sprengdir eru flugeldar strax milli jóla og nýárs. Einnig er hægt að fá Feromón efni - D.A.P sem vinnur gegn kvíða og hræðslu. Það er hægt að fá sem hálsól, úða og einnig úða með úðakló. Gott að byrja notkun á því ca 10 dögum fyrir áramótin. Við hér á dýraspítalanum höfum góða reynslu að því.

 

Við óskum öllum Gleðilegra Jóla og farsældar á komandi ári

 

Nýjast