Jól

Ásgeir Ólafsson.
Ásgeir Ólafsson.

Hvítur bleytingur hefur nú borist af himni síðastliðna daga í miklum mæli sem kallar á þennan ekta íslenska jólaanda. Nokkrir bölsótast þó og berjast áfram í skafrenningnum með rúðusköfuna eða jafnvel geisladiskahulstrið á lofti í fimmta sinn á jafn mörgun klukkutímum. En hvað með það þó við sköfum aðeins oftar yfir daginn? Eru blessuð jólin ekki gleðilegri með þetta snjóinn allt í kringum okkur?

Börnunum þykir það og jólin eru tími barnanna sem mótar eðli þeirra ár hvert með aukinni hógværð, góðmennsku og alúð. Ég var níu ára gamall. Ég sat með heitt súkkulaði sem náði aldrei að verða kaldara en þrjátíu og sjö gráður þegar mamma hafði langsoðið það eftir sínum hentugleika. Það kólnaði í kviði en ekki í bolla. Alveg sama hvað þú drakkst það hægt. Með lengri suðu kom betra bragð og því fylgdi alltaf eitt drykkjusár á tungubroddi. Þannig vildu líka allir á heimilinu hafa það. Ég sat á rúmstokknum mínum, kominn í jólafrí frá Barnaskólanum og snjóþyngslin á jörð í þá daga voru í miklu magni líkt og þau eru á götum Akureyrar í dag.

Samt sem áður vildi litli ljósi drengurinn jólasnjó, alvöru hundslappadrífu af himni á þessum fallega aðfangadegi jóla. Jólatréð sem pabbi hafði keypt hjá KEA stóð lifandi á sínum stað, fullskreytt og undantekningarlaust gefið allt of lítið að drekka. Pabbi faldi sig á bakvið tíkina á heimilinu. Sagði hundspottið drekka frá barrrótinni frekar en úr sinni eigin skál sem ætíð var full. Barrið lá á víð og dreif undir trénu og tréð var þyrst. Við vissum betur. Samt sem áður eru þetta góðar minningar. Okkur krökkunum þótti þetta fyndið ár hvert. Pabbi bað mig að líta eftir skýjunum þar sem ég sat, og sagði mér að ef snjórinn kæmi í dag, kæmi hann úr suðvestri. Hann benti á hornið í herberginu mínu með vísifingri sem benti út í bakgarðinn meðan hann kláraði setninguna. Ég starði þangað. Í sjálft hornið. Níu ára gamall og beið eftir því að það byrjaði að snjóa en ekkert gerðist. Svo skildi ég heldur aldrei af hverju ég átti að líta til skýjanna eftir snjó, en áttaði mig svo á því einn þungan veðurdag. Snjórinn kemur úr skýjunum. Ég hélt alltaf að hann kæmi frá Guði. Af hans frumkvæði sendi hann snjóinn til okkar á jörðina ef hann nennti. Mér þótti hann oft latur. Guð.En kannski vildi hann bara fá að vera í fríi á afmælisdaginn sinn. Þetta eru nú aðeins nokkrar af

Mörgum góðum minningum jólanna úr æsku sem ég tek með mér inn í fullorðinsárin. En ekki eru allar minningar í kringum þennan tíma öllum svo kærar. Sá tími sem nú knýr á dyr, kann að vera tíminn sem flestir tengja við notalegar stundir en því miður eru það sumir sem ná ekki að gera það. Þrátt fyrir að reyna. Árin 2005 og 2010 hratt ég af stað söfnun sem fram fór var í sjónvarpi í beinni útsendingu. Þar safnaði ég peningum fyrir þá sem ná ekki að upplifa sanna og ríka gleði jólanna. Eiga ekki til fé sem þarf í slíkan viðburð. Við náðum að safna samtals fimm milljónum. Því söfnunarfé var dreift á svæðinu hér norðanlands sem aðstoð til þeirra sem minna mega sín. Þetta tókst með dyggri aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. Við töldum okkur takast að veita öllum á svæðinu kærkomin jól með veglegum gjöfum árið 2005 og það var enginn svangur sem sat við borð þau jólin. Það var markmiðið og það náðist. Mér þótti með þessu að ég næði að breyta heiminum og þetta framtak hafði áhrif á mig sem manneskju. Til frambúðar. Upprifjun þessara minninga virkar þannig að nú, næstum tíu árum síðar, fæ ég enn fiðring um allan líkamann þegar ég hugsa til þess sem við náðum að gera fyrir fólkið. Fólkið okkar. Því öll erum við fólk og þar er enginn undanskilinn, alls ekki neinn, litlir sem stórir. Jólin eru tími ljóss og friðar og engan skal skilja útundan. Engan. Það er ekki í boði. Hvergi. Árið í ár er engin undantekning og ættum við nú öll, að velta þeirri hugsun fyrir okkur.

Hugsum til þeirra sem lifa í skugga óhamingju í stað gleðinnar sem flestir upplifa nú á næstu dögum. Hjálpum þeim við að búa til minningar líkt og ég rifjaði upp hér áðan. Öll börn skulu eiga góðar minningar um jólin. Einhvers staðar er lítill níu ára drengur, hér á Akureyri, sem situr við rúmstokk sinn í dag og óskar sér einhvers annars en þess sem ég óskaði mér. Ég vildi meiri snjó. Honum er alveg sama um veðrið og snjóinn. Hann vill bara fá að vera glaður, fá gjafir, góðan mat og drykk. Eins og við öll hin. Peningar eru sterkt verkfæri á þessum erfiða tíma. Finndu gleðina í að gefa og náðu að kalla fram tilfinninguna sem fylgir því að vera örlátur. Ég get sagt þér það með vissu, að það er engin tilfinning til sem er betri.

 Ég vil því skora á þig í anda jólanna, að leita til næsta hjálparstarfs, hvar sem það kann að vera í heiminum, og láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sem þurfa á því að halda. Eitthvert smáræði sem telur lítið fyrir þig en telur mikið fyrir þann sem það þiggur.

Ég trúi því að hægt sé að breyta heiminum… og ég upplifi það aldrei stærra en á þessum tíma ársins. Á jólunum. Ég hef aldrei upplifað fátækt. Ég þekki engan sem hefur upplifað hana en ég er ekki það einfaldur að geta ekki skilið þann sem fátækt þreytir. Gleðileg jól og takk fyrir að lesa pistlana mína.

Ásgeir Ólafsson.

Nýjast