„Ísland verði grænasta land í heimi“
Vikublaðið hitar nú upp fyrir alþingiskosningarnar sem fara fram í haust og mun blaðið á næstu vikum birta viðtal við oddvita allra flokkana sem bjóða fram í NA-kjördæmi. Við hefjum leikinn á Viðreisn en það er Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði, sem leiðir lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum. Eiríkur er kvæntur Ölmu Jóhönnu Árnadóttur, grafískum hönnuði og markþjálfa. Þau eiga þrjá stráka. Fjölskyldan flutti í Garðabæ 2019 eftir að hafa búið á Húsavík, Fljótsdalshéraði og Akureyri samtals í um 30 ár eða frá árinu 1986.
-Hvar ertu fæddur og uppalinn?
„Ég er fæddur á Landspítalanum í Reykjavík og bjó sem barn og unglingur á Háaleitisbraut þar sem foreldrar mínir ólu mig upp. Þó má segja að mestum tíma hafi ég varið á Framvellinum við Safamýri þar sem við krakkarnir í hverfinu vorum alla daga frá morgni til kvölds. Þar ól ég manninn fram á tvítugs ár í góðum félagsskap sem hafði mótandi áhrif á mig. Ég gekk í Álftamýrarskóla og var með frábæra kennara sem höfðu einnig mikil áhrif á þá stefnu sem hef tekið í lífinu. Árið sem ég varð tvítugur hófst nýr og spennandi kafli en þá flutti ég til Húsavíkur þar sem ég kynntist Ölmu konunni minni.“
-Hver eru þín helstu áhugamál?
„Ég hef gríðarlegan áhuga á fólki og mannlegri hegðun. Ég hef mjög gaman af því að vera innan um og hlusta á ungt fólk. Ég hef verið svo heppinn að fá að vinna mikið með ungmennum og finnst lykilatriði að ungt fólk raði sér ofarlega á okkar lista í kjördæminu og blandi sér í alla umræðu. Ég hef alltaf stundað mikla hreyfingu, hleyp og syndi reglulega. Svo reyni ég að spila golf eftir því sem ég hef tíma. Ég er mikill áhugamaður um íþróttir almennt og hef líka áhuga á menningu eins og tónleikum, myndlistarsýningum, leiksýningum og að skoða söfn. Ég er árangursdrifinn, þarf alltaf að vera með eitthvað í bígerð og þar sem ég brenn fyrir samfélagsmálum les ég eins mikið og ég get t.d. um nýsköpun og stjórnmálafólk.“
-Af hverju ætti fólk að kjósa Viðreisn?
„Ef fólk vill frjálslyndi, frelsi og jafnrétti ætti það að kjósa Viðreisn. Þetta eru leiðarstef Viðreisnar því það er nauðsynlegt að skapa öllum landsmönnum jöfn tækifæri og styðja þá sem ekki geta nýtt þau. Viðreisn vill að ákvarðanir séu ávallt teknar með almannahagsmuni að leiðarljósi, en ekki sérhagsmuni. Þannig sköpum við réttlátt samfélag þar sem allir, einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóta jafnræðis. Frambjóðendur Viðreisnar í NA kjördæmi, eins og allir frambjóðendur flokksins bjóða fram krafta sína af öllu hjarta, þeir vilja breytingar, finna og nýta möguleika og tækifæri og vinna af heilum hug til að efla hag allra. Frambjóðendur Viðreisnar í kjördæminu vilja vera þjónar íbúanna frekar en kerfisins og stuðla að því að raddir fólksins heyrist þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Ef fólk vill gefa framtíðinni tækifæri ætti það að kjósa Viðreisn.“
-Hverjar eru ykkar áherslur?
„Kosningarnar í haust snúast um framtíðina og hver framtíðarsýnin er fyrir Ísland. Okkar framtíðarsýn byggist meðal annars á því að tryggja efnahagslegan stöðugleika í landinu með því að tengja krónuna við evru, þjónustuvæða heilbrigðiskerfið, útrýma biðlistum þar og niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Þá viljum við að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindum þjóðarinnar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Við viljum að Ísland verði fyrirmynd fyrir önnur lönd um hvernig minnka megi losun og takast á við loftslagsvandann. Okkar framtíðarsýn er að Ísland verði grænasta land í heimi.“
-Hvaða tækifæri sérð þú í að efla atvinnulífið á Norðurlandi eystra?
„Við verðum að standa betur við bakið á fyrirtækjum sem eru í nýsköpun. Það á t.d. við á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, heilbrigðisþjónustu, menningarmála, hugbúnaðar og umhverfismála. Við ætlum að sýna í verki hversu mikilvægt er að virkja hugvitið því það er svo sannanlega til staðar. Okkar markmið er að fjölga kjölfestugreinum í útflutningi til að skapa meiri verðmæti og meiri tekjur. Við ætlum að standa þétt við bakið á þeim fyrirtækjum og stofnunum sem eru starfand í kjördæminu í dag um leið og við tryggjum að ný fyrirtæki og stofnanir vilji flytja sjálfviljug inn á svæðið. Þetta er samt ekki hægt nema að jarðvegurinn sé í lagi og það gerum við m.a. með því að tryggja efnahagslegan stöðuleika, alþjóðlegt og umhverfisvænt markaðsumhverfi.“
-Hvernig má hlúa betur að brothættum byggðum á svæðinu?
„Í fyrsta lagi skiptir öllu máli að fylgja eftir markmiðum og niðurstöðum þeirra verkefna sem unnið hefur verið að í kjördæminu af Byggðastofnun og sveitarfélögunum um Brothættar byggðir. Það er til lítils gagns að vinna að svona verkefnum og byggja upp væntingar ef engin er eftirfylgnin með formlegum stuðningi eins og fjármagni. Í öðru lagi er mikilvægt að tryggja háhraðanet og raforkuöryggi til allra íbúa landsins. Það er hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að jöfn skilyrði og jöfn tækifæri séu um allt land til að skapa vaxtamöguleika fyrir atvinnulífið. Í þriðja lagi þá þarf að bæta samgöngur til að stækka atvinnusvæði og tryggja öruggari þjónustu eins og t.d. heilbrigðisþjónustu.“
-Hvernig viltu þú og þinn flokkur efla innviði þannig að ferðaþjónustan geti blómstrað á svæðinu?
„Það er gríðarlega mikilvægt að stórbæta öll samgöngumannvirki í kjördæminu til að skapa öryggi fyrir ferðamenn innlenda sem erlenda t.d. við hafnir, á þjóðvegum og á flugvöllum. Það er t.d. tómt mál að tala um vetrarferðamennsku nema að vegir og aðgengi að náttúruperlum sé aðgengilegt bæði sumar og vetur. Ég vil sýna í verki að við viljum sannanlega fjölga gáttum inn í landið til að geta tekið við fleiri ferðamönnum þannig að þeir dreifist um landið. Markaðssetning opinberra aðila verður að ná til alls landsins en ekki bara til suðvesturhornsins. Við dælum ekki fjármunum í markaðssetningu á suðvesturhornið og látum aðra landsfjórðunga fá molana sem falla af borðinu eins og núverandi stjórnvöld hafa gert. Þetta er spurning um réttlæti og jöfnuð.“
-Þarf ríkið að koma betur að málum varðandi uppbyggingu á Akureyrarflugvelli?
„Ríkið hefur í mörg ár þurft að koma betur að uppbyggingu samgöngumannvirkja í kjördæminu og þar á meðal Akureyrarflugvelli. Það sama gildir líka um aðra flugvelli í kjördæminu. Áhersla núverandi stjórnvalda hefur verið á uppbyggingu í Keflavík og markaðssetningu ferðaþjónustunnar á suðvesturhorninu. Þrátt fyrir margra ára baráttu okkar á Norðausturlandi hefur allt of lítið gerst og allt of hægt. Það sorglega er að rétt fyrir kosningar, núna eins og margar aðrar kosningar, eru réttir fram smáaurar samanborið við það sem sett er í Keflavíkurflugvöll og látið líta út eins og hugurinn hafi alltaf verið hjá okkur. Til að toppa vitleysuna eru svo oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í kjördæminu komnir í samkeppni um hvor flokkurinn hafi tryggt þessa aura.“