Innréttingum og tækjum úr Hólabúðinni stolið

Hólabúðinni var lokað í síðustu viku/mynd karl eskil
Hólabúðinni var lokað í síðustu viku/mynd karl eskil

„Okkur brá auðvitað all verulega við að heyra þessi tíðindi,“ segir Nanna G. Yngvadóttir. Ýmsum munum úr Hólabúðinni á Akureyri var stolið í lok síðustu viku eða um helgina, en þeir voru geymdir í gámi við Kaldbaksgötu á Akureyri. Rekstri Hólabúðarinnar var hætt í síðustu viku eftir 73 ára rekstur.  Yngvi Loftsson rak Hólabúðina í áratugi og sáu afkomendur Yngva um afgreiðslu síðasta opnanardaginn, meðal annars Nanna.

 „Innbrotsþjófarnir tóku ýmislegt úr gámnum, svo sem dýrar samstæður  úr stáli, ýmis verkfæri og líka tæki til víngerðar. Ég frétti fyrst af þessu í morgun og lögreglan hefur verið látin vita um innbrotið.Við settum gamla skrifborðið pabba í gáminn og skúffurnar úr því voru teknar.  Skrifborðið er mér kært og ég er viss um að þessar skúffur gagnast engum. Ég vona sannarlega að lögreglunni takist að upplýsa málið,“ segir Nanna.

Rannsóknarlögreglan á Akureyri segir að rannsókn sé hafin.

Nýjast