Ingvar og Jónína best
Íshokkísamband Íslands hefur útnefnt þau Ingvar Þór Jónsson og Jónínu Margréti Guðbjartsdóttur, bæði hjá Skautafélagi Akureyrar, sem íshokkí fólk ársins í karla-og kvennaflokki árið 2013. Ingvar Þór varð bæði deildar- og Íslandsmeistari á síðasta tímabili með SA, ásamt því að vera spilandi þjálfari liðsins. Á heimsmeistaramóti sem haldið var í Króatíu í apríl síðastliðnum náði íslenska liðið sínum besta árangri til þessa, þegar liðið varð í 3ja sæti í sínum riðli. Þar var Ingvar Þór fyrirliði landsliðsins og lykilmaður í vörninni. Ingvar Þór hefur leikið alla landsleiki sem karlalandslið Íslands hefur spilað frá því að liðinu var hleypt af stokkunum 1999. Auk þess hefur Ingvar verið fyrirliði liðsins í 12 ár.
Jónína varð deildar- og Íslandsmeistari með SA á síðastliðnu keppnistímabili, sem er tólfti Íslandsmeistaratitill hennar. Jónína Margrét lék einnig með landsliðinu á heimsmeistaramóti Alþjóða Íshokkísambandsins á Spáni sl. vor. Hún hefur leikið íshokkí frá stofnun kvennaliðs Skautafélags Akureyrar vorið 2000 og orðið Íslandsmeistari með liðinu alls tólf sinnum. Hún hefur átt fast sæti í landsliði Íslands síðastliðin ár.