Hyggjast reisa 25 íbúða hús á fimm hæðum á Húsavík
Naustalækur ehf. hefur fengið úthlutað lóð fyrir fjölbýlishús að Stóragarði 18 á Húsavík. Þar hyggst félagið reisa tuttugu og fimm íbúða hús á fimm hæðum. Í húsinu eru fimm mismunandi útfærslur af íbúðum sem ættu að henta fjölbreyttum hópi íbúa á öllum aldri enda verður að sjálfsögðu lyfta í húsinu. Næg bílastæði verða einnig við húsið. Öllum íbúðum fylgir geymsla í kjallara. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Samkvæmt tilkynningunni er stefnt er að því að hefja framkvæmdir við uppsteypu þegar vorar og afhenda kaupendum tilbúnar íbúðir þann 27. febrúar 2025 kl.14:00.
„Það eru einungis 783 dagar þangað til (sem eru ótrúlega fljótir að líða) og því sömdum við sem fyrr við Trésmiðjuna Rein um að taka verkið að sér. Rein ásamt undirverktökum hafa séð um að byggja fyrir Naustalæk ehf. bæði Útgarð 6 sem var afhentur fyrir ríflega 2 árum síðan og eru að byggja fyrir Naustalæk ehf. Útgarð 2 og íbúðir þar nánast uppseldar,“ segir í tilkynningunni um leið og tilhlökkun yfir verkefninu er lýst yfir.
„Við sem stöndum að Naustalæk ehf. hlökkum til að takast á við þetta verkefni og að fá að byggja ný heimili fyrir fjöldan allan af fjölskyldum,“ segir í tilkynningunni.
Greint er frá því að þegar sé byrjað að taka frá íbúðir í húsinu að Stóragarði. „Því er um að gera fyrir áhugasama að hafa samband við hann Hermann Aðalgeirsson hjá Lögeign fasteignasölu."