20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hverjum tíma fylgir sín skautun
Fimmtánda Ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið var haldin við Háskólann á Akureyri 2. og 3. júní. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var „Skautun í íslensku samfélagi.“ Ráðstefnan var sú stærsta hingað til með 75 erindum og ekki annað að sjá en að ráðstefnu gestir hafi haft bæði gagn og gaman af. Ekki sakaði að norðlenskt sumar tók fagnandi á móti ráðstefnugestum.
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir doktorsnemi í HA sem kom að skipulagi ráðstefnunnar sagði ráðstefnuna hafa tekist afar vel. „Þetta tókst rosalega vel og gaman að því hvað þemað skautun bauð uppá fjölbreytt erindi og breitt fræðasvið. Við erum öll að verða vör við ákveðna skautun í alls kyns umræðum á samfélagsmiðlum þar sem myndast andstæðar fylkingar með mikilli hörku án þess að endilega sé tilefni til,“ segir Gréta og bætir við að gott sé að staldra við og ræða einmitt þetta. „Svo auðvitað skartaði norðlenska sumarið sínu besta veðri þannig að seinnipartur í miðbænum með kaldan á kantinum var tilvalinn staður til að halda umræðum dagsins áfram.“
Fjölbreytt erindi
Erindin voru mjög fjölbreytt og lykilerindin tvö voru mjög áhugaverð og endurspegluðu vel þema ráðstefnunnar. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði og Laufey Axelsdóttir, nýdoktor í kynjafræði héldu fyrra lykilerindið – „Kynsegin veruleiki sem vettvangur andófs og baráttu“ – á föstudeginum. Ísland telst nú í fararbroddi í málefnum hinsegin og trans fólks samkvæmt ILGA, Evrópusamtökum hinsegin fólks, ekki síst vegna laganna um kynrænt sjálfræði frá 2019.
Í erindinu var kynnt ný könnun um skilning fólks á og stuðning við lögin, og viðhorf til nýyrða í tengslum við veruleika kynsegin fólks. Fram kom að barátta kynsegin fólks nær ekki bara til lagabreytinga heldur einnig menningarlegra þátta og ekki síst tungumálsins. Niðurstöðurnar benda til að talsverður munur sé milli hinna ýmsu þjóðfélagshópa á stuðningi við lögin og skilningi á kynsegin hugtökum svo sem hán, kynsegin, kvár, stálp o.fl.
Skilningur á lögunum meiri hjá konum en körlum
Stuðningur við lögin og skilningur á hugtökum er meiri hjá yngra fólki en eldra, hann er meiri eftir því sem menntun eykst, meiri hjá fólki sem er vinstra megin á hinum pólitíska kvarða en hægra megin, og síðast en ekki síst er stuðningur við lögin og skilningur á hugtökum umtalsvert meiri hjá konum en körlum. Að lokum kom fram að í hinsegin og kynsegin aktívisma er bæði málkerfinu og kynjatvíhyggjunni ögrað. Það þurfi hins vegar að skoða nánar hvað í þessum hræringum sé einungis andstaða við málfarsleg atriði og hvað í þeim risti dýpra.
Jaðarsetning frá fornu fari
Arngrímur Vídalín, lektor í íslenskum bókmenntum fyrri alda hélt seinna erindið –„Skautun í fortíð og nútíð: orðræða Íslendinga um hina“ – á laugardeginum. Í máli hans kom meðal annars fram að jaðarsetning og afmennskun á grundvelli uppruna, þar með talið kynþáttabundinna þátta svo sem hörundslitar eða menningarlegra þátta á við trúarbrögð, hefur átt sér stað á Íslandi allt frá öndverðu.
Fólk af öðrum uppruna er í íslenskum miðaldatextum sýnt í skrímslislegu ljósi og afmennskandi orðræða um hörundsdökka helst óslitin frá elstu textum allt fram á okkar daga. Arngrímur segir að hverjum tíma fylgi sín skautun, og því sé mikilvægt að varpa sögulegu ljósi á hvernig mannlegt eðli og þar með menningin sjálf elur af sér skautaðar átakalínur.
Félagsvísindadeild 20 ára
Það var vel við hæfi að 15. ráðstefnan af þessu tagi skyldi haldin við Háskólann á Akureyri þar sem í ár eru 20 ár eru síðan Félagsvísindadeild HA var stofnuð (hét þá Félagsvísinda- og lagadeild). Fyrsta Ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið var einmitt haldin við HA árið 2007 en ráðstefnan er upphaflega hugarfóstur Þórodds Bjarnasonar prófessors við HA og HÍ. Næsta Ráðstefna um íslenska þjóðfélagið verður haldin á næsta ári við Háskólann á Bifröst.