27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Hver vegur að heiman er vegurinn heim
Fyrir þrjátíu árum var Akureyringurinn Sverrir Ragnarsson í hópi nýstúdenta VMA – af viðskipta- og hagfræðibraut. Eins og grunnurinn í náminu hans forðum daga sagði til um fetaði hann braut viðskiptanna og síðustu árin hefur hann búið í Bandaríkjunum og einbeitt sér að fyrirlestrahaldi og ráðgjöf til stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja út um allan heim. Og nú er Sverrir kominn á heimaslóðir og heldur fyrirlestra í Hofi laugardaginn 7. janúar nk. – annars vegar fyrir yngra fólk á aldrinum 10-16 ára og hins vegar fullorðna. Þetta kemur fram á heimasíðu Verkmenntaskólans á Akureyri.
„Þegar ég horfi til baka til skólaáranna í VMA minnist ég þess að þetta var skemmtilegur tími og ég tel að við höfum fengið fína menntun og góðan grunn fyrir lífið. Á þessum tíma var ég til hliðar við námið í VMA í íþróttum, bæði í fótbolta og handbolta. Þó langt sé um liðið eru enn kennarar við skólann sem kenndu mér á þessum tíma, t.d. Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari. Það var gaman að hitta hann á dögunum og rifja upp þessa tíma,“ segir Sverrir í greininni á heimasíðu VMA sem lesa má í heild sinni hér.