Húsnæðisverð fer hækkandi og allt selst sem kemur á sölu
„Staðan hjá okkur er sú að það vantar húsnæði og einnig fólk til starfa,“ segir Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi.
Sveitarstjórn hreppsins hefur á fundum sínum, m.a. nú í vikunni rætt hvaða möguleikar eru í stöðunni. Þröstur segir að með frekari uppbyggingu í atvinnulífinu megi búast við að þessi þörf fari vaxandi, en sem dæmi er í byggingu nýtt hótel á svæðinu og þá er verið að stækka lyfjaverksmiðju Pharmarctica.
Þröstur segir að lengi vel á þessari öld hafi staðan verið sú að einungis sveitarfélagið byggði íbúðir á Grenivík. Á allra síðustu árum hafa einstaklingar farið að byggja á ný. „Það er til marks um aukna bjartsýni á framtíðina enda hefur húsnæðisverð farið hækkandi og allt selst sem boðið hefur verið til sölu,“ segir hann.
Byrjað verði að byggja næsta vor
Nú eru tvö einbýlishús í byggingu og eitt parhús, allt á vegum einkaaðila. Þröstur segir að sveitarfélagið skoði möguleika á frekari uppbyggingu, með byggingaraðilum eða leigufélögum eftir atvikum. „Stefnan er að reyna að tryggja að það verði hafin bygging á einhverjum íbúðum næsta vor. Í því skyni er t.d. verið að hefja vinnu við deiliskipulag nýs hverfis þar sem áhersla verður á einbýlishús með fallegu útsýni,“ segir Þröstur.
/MÞÞ