Húsnæði Fangelsins á Akureyri að mestu staðið autt í rúmt ár

  • Nauðsynlegar breytingar framundan svo lögreglan geti nýtt húsið


 

Húsnæðið sem áður hýsti Fangelsið á Akureyri hefur að mestu staðið autt í rúmt ár. Fangelsinu var skellt í lás um miðjan september í fyrra. Biðlaunagreiðslum til fangavarða er nú nýlega lokið. Fyrirhugað er að nýta þess húsnæði undir starfsemi embættis Lögreglustjórans á Akureyri en áður þarf að gera nauðsynlegar endurbætur á því.

„Það mun koma sér vel að geta rekið aðrar einingar á meiri afköstum. Reksturinn hefur, eins og hjá mörgum öðrum stofnunum, verið í járnum en það er ljóst að í þessu felst hagræði,“ segir Páll Egill Winkel fangelsismálastjóri. Hann segir að útgjöld vegna fangelsins hafi legið fyrir og allar áætlanir staðist. Aðrar einingar verða nýttar betur og framlög til málaflokksins lækkuðu ekki þó Fangelsinu á Akureyri hafi verið lokað. Áætlað er að sparnaður við að loka því nemi um 65 milljónum króna árlega. Allir fangar afplána nú í þeim fjórum fangelsum sem eftir eru, Litla-Hrauni, Sogni, Kvíabryggju og Hólmsheiði.

Kostnaður við að flytja gæsluvarðhaldsfanga suður 250 þúsund krónur

Frá því fangelsinu var lokað í fyrra hafa fjórir fangar sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald verið fluttir suður til að sæta því. Kostnaður er samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu um 250 þúsund krónur á hvern fanga. Kostnaðurinn nemur því einni milljón króna. Á bilinu 3 og upp í 19 gæsluvarðhaldsúrskurðir hafa verð kveðnir upp á Norðurlandi eystra undanfarin ár, flestir árið 2018 eða 19 talsins og fæstir ári síðar þegar þeir voru 3.

Fangelsi hefur verið starfrækt á Akureyri frá árinu 1978, en það var endurbyggt árið 2008. Pláss var fyrir 10 fanga á hverjum tíma. Alls afplánuðu 120 fangar óskilorðsbundna fangelsisrefsingu að hluta eða öllu leyti frá upphafi árið 2015 og þar til því var lokað, en ef farið er allt til ársins 1985 hafa um eitt þúsund fangar verið þar samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.

Breytingar gerðar á húsnæði

Ríkið á húsnæðið og fyrir dyrum stendur að gera á því nauðsynlegar breytingar svo embætti lögreglustjórans geti nýtt það undir sína starfsemi. Aðstaða var orðin of lítil í því húsnæði sem embættið hafði til umráða. Agnes Björk Blöndal saksóknarfulltrúi hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra segir að yfir standi örútboð vegna framkvæmda sem fyrirhugað er að fara í. Þeim á að ljúka á fyrri hluta ársins 2022.

/MÞÞ

Nýjast