13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Húsavíkingar geta verið stoltir þó Óskurum fjölgi ekki
Húsavík – My Hometown úr Netflixmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga hlaut ekki Óskarsverðlaunin en tilkynnt var um það rétt í þessu. Lagið Fight for you úr kvikmyndinni Judas and the Black Messiah hlaut verðlaunin.
Húsvíkingar geta þó gengið stoltir frá borði enda hefur Óskarsævintýrið verið ómetanleg kynning fyrir ferðamannabæinn Húsavík. Tugir milljóna horfðu á Molly Sandén flytja lagið ásamt 17 stúlkum úr 5. bekk Borgarhólsskóla á Húsavík. Bærinn hefur verið í heimsfréttunum undanfarnar vikur en Óskarsherferð Húsvíkinga hefur hlotið verðskuldaða athygli um heim allan. Herferðin hefur eflaust haft áhrif á þá ákvörðun um að myndbandið sem flutt var á hátíðinn var tekið upp á Húsavík fyrir viku síðan.
Örlygur Hnefill Örlygsson, sem farið hefur fyrir Óskarsherferðinni sagði í viðtali við Vikublaðið í vikunni hvernig sem færi gætu Húsavíkingar verið stoltir. „Við vonumst auðvitað til þess að vinna styttuna en eftir þetta; vitandi það að Húsavík verður í sviðsljósinu á Óskarshátíðinni, þá er þetta sigur fyrir okkur, hvernig sem fer,“ sagði hann.